Milli mála - 2018, Blaðsíða 113
MARION LERNER
Milli mála 10/2018 113
var að vísu ekki einn um þessa skoðun. Benedikt Gröndal, sem var
hrifinn af Pilti og stúlku heilt á litið, tók fyrri útgáfuna fram yfir þá
síðari og segir að þar hafi höfundurinn leiðst út í „að koma með ýms
orð sem honum hafa fundist findin, en sem oss finnast ófindin“.83
Eftirtektarvert er að um leið og þýðandinn hundsaði brúðkaups-
viðbótina sem honum fannst misheppnuð, fjarlægði hann eigin
aftanmálsgrein upp á heila blaðsíðu sem fjallaði einmitt um brúð-
kaupsvenjur á Íslandi.84 Þeir meintu brúðkaupssiðir sem Poestion
lýsti voru býsna fantasíukenndir en voru sagðir byggja á ferða-
lýsingum. Líklegt verður að telja að Poestion hafi orðið meðvitaður
um að þessar lýsingar voru frekar uppspuni en annað og fjarlægt
aftanmálsgreinina af þeim sökum. Poestion tjáir sig ekki um síðara,
styttra innskotið sem Jón Thoroddsen bætti við í 37. kafla og það er
heldur ekki að finna í þýðingu hans. Ekkert bendir heldur til þess
að Poestion hafi aðlagað málfar í síðari útgáfum sínum að seinni
útgáfu frumtextans. Honum virðist hafa fundist það ónauðsynlegt,
óæskilegt eða einfaldlega of mikil fyrirhöfn.
9. Samantekt
Þrátt fyrir að Jósef Calasanz Poestion hafi lítið tjáð sig um eiginleg
þýðingarstörf sín er unnt að greina viðhorf hans eins og þau birtast
í hinum umfangsmiklu hliðartextum sem hann lét fylgja þýðingum
sínum. Áberandi er að hann taldi mjög mikilvægt að hafa sterka
nærveru í þýðingunum og til þess notaði hann fjölda nærtexta.
Hann var hvorki sérlega hlédrægur gagnvart frumtextanum né
höfundi hans, heldur tók sér þann rétt að breyta textanum og fram-
fylgja eigin gæðamati.
Meginmarkmið hans með þýðingunum mætti skilgreina sem
landkynningar- og bókmenntasöguleg. Hann vildi kynna land
og þjóð og valdi til þess dæmi úr íslenskum bókmenntum.
Frumtextana sjálfa undirskipaði hann þessum ásetningi. Við slíkar
aðstæður eiga megintextarnir, þ.e. þýðingarnar sjálfar, á hættu að
hverfa á bak við merkilega umfangsmikla fylgitexta eða falla að
minnsta kosti í skuggann af þeim.
83 Benedikt Gröndal, „Um hagi Íslands“, Gefn 3(2)/1872, bls. 48–62, hér bls. 60.
84 Jüngling und Mädchen, 1883, aftanmálsgrein 24, bls. 147–148.