Milli mála - 2018, Síða 119
MILLI MÁLA
Milli mála 10/2018 119
Olga Aleksandrovna Markelova
Skáldsagan 101 Reykjavík á rússnesku
Að þýða orðaleik
Höfundur þessarar greinar er ekki þýðingafræðingur, en hefur mikla og fjölbreytta reynslu af þýðingum á íslenskum bók-
menntum á rússnesku. Hér verður sagt frá þýðingu höfundar á
skáldsögunni 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason1 sem kom út
á rússnesku árið 2008.2 Við fyrstu kynni virkaði 101 Reykjavík eins
og gamansöm skáldsaga handa ungu fólki en reyndist síðan vera
annað og meira. Textinn bauð upp á margar þrautir fyrir þýðandann,
einkum og sér í lagi þar eð þýðandinn var frá menningarheimi utan
Vestur-Evrópu. Hér á eftir verður fjallað um dæmi í bókinni sem
reyndust þýðandanum erfið og vinnu hans við að leysa þau.
Margar af þessum þrautum voru af hreinræktuðum menningarlegum
toga, þ.e. vísanir til séríslenskra fyrirbæra, allt frá torfbæjamenningu og
tilvitnunum í sígild kvæði, til dægurlaga og sjónvarpsefnis. Aðalhetjan
í skáldsögunni, Hlynur Björn, notar eins og þekkt er ríkulega alls kyns
vísanir og tilvitnanir þegar hann segir frá, og oftar en ekki eru það
vísanir í texta sem fáir þekkja í rússneskum menningarheimi nema
þá helst íslenskufræðingar. En vandann var hægt að leysa með því
að útskýra hin og þessi fyrirbæri í neðanmálsgreinum.3 Í rússnesku
þýðingunni eru því fjölmargar neðanmálsgreinar.
1 Allar vísanir til frumtextans eru samkvæmt: Hallgrímur Helgason, 101 Reykjavík, Reykjavík, Mál
og menning, 2002. Vísað verður til blaðsíðutals í sviga á eftir tilvitnunum.
2 Allar vísanir í rússnesku þýðinguna eru samkvæmt: Халлгримур Хельгасон, 101 Рейкьявик,
þýð. О. А. Маркеловa, Санкт-Петербург: «Азбука», 2008. Vísað verður til blaðsíðutals í sviga
á eftir tilvitnunum.
3 Til samanburðar má nefna enska þýðingu skáldsögunnar, Hallgrímur Helgason, 101 Reykjavik,
þýð. Brian FitzGibbon, New York: Scribner, 2002, þar sem vísunum til flestra íslenskra menn-
ingarfyrirbæra (aðallega þó dægurmenningar) er skipt út fyrir bandarískar. Þótt Hlynur Björn
vitni líka í bandarísk dægurlög og sjónvarpsefni er íslenski menningarþátturinn þó grundvallandi
hjá honum og fjarvera hans áberandi fyrir bragðið.