Milli mála - 2018, Side 135
MILLI MÁLA
Milli mála 10/2018 135
Rebekka Þráinsdóttir
Háskóli Íslands
Um Aleksander Púshkín (1799–1837)
og „Stöðvarstjórann“ (1830)
Aleksander Púshkín nýtur þess heiðurs að vera nefndur þjóð-skáld Rússa. Hans er fyrst og fremst minnst sem ljóðskálds í
heimalandi sínu en á síðari hluta höfundarferilsins jókst áhugi hans
á prósaskrifum og sendi hann frá sér nokkrar smásögur og sögulegar
skáldsögur. Ofmælt er að segja að Púshkín sé upphafsmaður rúss-
neskra bókmennta en þó er framlag hans til þeirra af slíkri stærðar-
gráðu að hann má án efa telja föður nútímabókmennta í heimalandi
sínu og verk hans, bæði í bundnu og óbundnu máli, höfðu óaf-
máanleg áhrif á þróun rússneskra bókmennta. Púshkín réðst djarfur
til verka á þeim ökrum sem á vegi hans urðu, plægðum jafnt sem
óplægðum. Hann vann á sjálfstæðan hátt úr þjóðsagna- og ævin-
týraarfi Rússlands, sögulegum efnum og erlendum fyrirmyndum.
Raunsæi og rómantík, ástir og afbrýði, sálfræði og eðli mann-
eskjunnar, svik og dauði, handanlífið og bókmenntirnar sjálfar – allt
á þetta sinn sess í verkum þessa merka höfundar. Að auki veltir hann
fyrir sér málefnum líðandi stundar, stöðu ólíkra stétta og hlutverki
skáldsins gagnvart listinni, þjóðinni og keisaranum, svo eitthvað sé
nefnt.
Skáldverk Púshkíns hafa fram til þessa dags verið óþrjótandi
innblástur nýrra verka, hvort heldur sem er á sviði tónlistar, leik-
ritunar, mynd- og kvikmyndalistar eða bókmennta. Rússnesk 19.
aldar tónskáld sem byggðu á verkum Púshkíns hafa borið hróður
hans um veröld víða og má þar nefna óperurnar Jevgení Onegín (1879)
og Spaðadrottninguna (1890) eftir Pjotr Tsjakovskí, og Borís Godúnov
(1874) eftir Modest Músorgskí, auk fjölda sönglaga og rómansa.