Milli mála - 2018, Side 140
STÖÐVARSTJÓRINN
140 Milli mála 10/2018
kallaður þrældómur? Ónæði jafnt á nóttu sem degi. Ferðalangurinn
tekur alla gremjuna, sem hlaðist hefur upp á lýjandi ferðalagi, út
á stöðvarstjóranum. Óbærilegt veður, lélegir vegir, þrjóskur ekill,
latir hestar – allt er það stöðvarstjóranum að kenna. Ferðalangur
sem gengur inn í fátæklegar vistarverur stöðvarstjóra, lítur gjarnan
á hann sem óvin, og stöðvarstjórinn má teljast heppinn ef hann
losnar fljótt við hinn óboðna gest. En hvað ef engir hestar skyldu
nú vera til taks? … Guð minn góður! Hvílíkar skammir, hvílíkar
hótanir sem hann þá fær yfir sig! Í rigningu og slyddu verður að
hlaupa á milli húsa og í stormi og nístingsfrosti fer hann út á
veröndina til að hvíla sig, þó ekki sé nema stundarkorn, á fyrir-
gangi og hrópum í geðvondum gesti. Hershöfðingja ber að garði;
stöðvarstjórinn lætur hann skjálfandi hafa tvö síðustu þríeykin, líka
það sem ætlað er hraðboðanum. Hershöfðinginn fer sína leið án
þess að þakka fyrir sig. Fimm mínútum síðar klingir í bjöllum! …
og inn kemur sérlegur sendiboði sem fleygir ferðaskjölum sínum á
borðið! Ef við skoðum málið frá öllum hliðum, fyllist hjarta okkar
einlægri meðaumkun í stað gremju. Örfá orð í viðbót: í tuttugu
ár hef ég ferðast um Rússland þvert og endilangt; ég þekki nánast
hvern einasta veg; ég hef kynnst nokkrum kynslóðum póstekla; þeir
eru fáir stöðvarstjórarnir sem ég þekki ekki í sjón, og fáir sem ég
hef ekki átt viðskipti við. Þær athuganir sem ég hef gert á ferðum
mínum hafa leitt mig að áhugaverðum niðurstöðum, sem ég vonast
til að birta á prenti innan skamms; þangað til læt ég nægja að segja,
að sú mynd sem almenningur hefur af stétt stöðvarstjóra er alröng.
Stöðvarstjórar, sem hafa verið rægðir svo rækilega, eru í raun frið-
semdarfólk, greiðviknir frá náttúrunnar hendi, mannblendnir,
lítillátir þegar kemur að vegtyllum og ekki úr hófi fégráðugir. Í
samtölum við stöðvarstjóra (sem ferðalangar úr röðum heldri manna
hafa svo ranglega lítilsvirt) kemur margt fram sem er fróðlegt og
upplýsandi. Hvað mig varðar, þá viðurkenni ég að ég tek slík
samtöl fram yfir hjalið í einhverjum embættismanninum í sjötta
þrepi, sem er á ferð í ríkiserindum.
Auðvelt er að geta sér þess til að ég eigi kunningja í hinni æru-
verðugu stétt stöðvarstjóra. Reyndar er minningin um einn þeirra
mér afar dýrmæt. Atvikin leiddu okkur eitt sinn saman og um
þennan mann ætla ég nú að ræða við mína kæru lesendur.