Milli mála - 2018, Síða 143
ALEKSANDER PÚSHKÍN
Milli mála 10/2018 143
gift. Hugsunin um að annað þeirra væri fallið frá hvarflaði líka að
mér og það setti að mér kvíða þegar ég nálgaðist stöðina ***.
Hestarnir námu staðar við litla pósthúsið. Þegar ég kom inn í
herbergið þekkti ég strax aftur myndirnar með sögunni af týnda
syninum; borðið og rúmið stóðu á sama stað, en í gluggunum voru
ekki lengur nein blóm og allt bar vott um niðurníðslu og hirðu-
leysi. Stöðvarstjórinn svaf undir gæruskinnsúlpu; koma mín vakti
hann og hann stóð upp … Þetta var sannarlega Samson Vyrín, en
það sem hann hafði elst! Á meðan hann var að skrá beiðni mína um
nýja hesta, virti ég fyrir mér gráar hærurnar, djúpar hrukkurnar
í andlitinu, sem ekki hafði verið rakað lengi, bogið bakið – og
undraðist hvernig þrjú eða fjögur ár gátu breytt hraustum manni í
örvasa gamalmenni.
– Þekkir þú mig ekki? spurði ég hann, – við erum gamlir kunn-
ingjar.
– Það má vera, svaraði hann snúðugt, – þetta er þjóðvegur; það
hafa margir ferðalangar komið við hjá mér.
– Er hún Dúnja þín við góða heilsu? hélt ég áfram.
Gamli maðurinn yggldi sig.
– Það má Guð vita, svaraði hann.
– Jæja, hún er þá líklega gift? sagði ég.
Gamli maðurinn lét sem hann heyrði ekki spurninguna, og hélt
áfram að lesa beiðnina í hálfum hljóðum. Ég spurði einskis frekar og
bað um að láta setja upp ketilinn. Forvitnin var farin að angra mig
og ég vonaði að púnsið myndi losa um málbeinið á mínum gamla
kunningja.
Mér skjátlaðist ekki: gamli maðurinn hafnaði ekki glasinu sem
ég bauð honum. Ég tók eftir því að rommið sló á geðvonsku hans. Á
öðru glasi varð hann skrafhreifinn; mundi eða lét sem hann myndi
eftir mér, og þá fékk ég að heyra frásögn sem vakti einlægan áhuga
minn og snart mig djúpt.
– Svo þú þekktir hana Dúnju mína, byrjaði hann. – Hver þekkti
hana ekki? Æ, Dúnja, Dúnja! Þvílík stúlka sem hún var! Það
var sama hver kom hér við, allir hældu henni og enginn hallaði
á hana orði. Frúrnar færðu henni gjafir, vasaklút eða eyrnalokka.
Herramenn stoppuðu hér gagngert undir því yfirskini að borða
hádegisverð eða kvöldverð, en í raun og veru vildu þeir einungis