Milli mála - 2018, Síða 147
ALEKSANDER PÚSHKÍN
Milli mála 10/2018 147
þar sem hann gisti hjá gömlum starfsbróður, fyrrverandi undirfor-
ingja, í Ízmajlovksí-hverfinu og hóf eftirgrennslan sína. Fljótlega
komst hann að því að kafteinn Mínskí væri í borginni og byggi á
Demútov-hótelinu. Stöðvarstjórinn ákvað að fara til hans.
Snemma morguns kom hann í forstofu hans og bað um að hans
tign yrði tilkynnt að gamall hermaður óskaði eftir að fá að hitta
hann. Herþjónninn, sem var að pússa stígvél, tilkynnti að herrann
væri að hvíla sig og tæki ekki á móti neinum fyrir klukkan ellefu.
Stöðvarstjórinn hvarf á braut og sneri aftur á tilsettum tíma. Mínskí
kom sjálfur til dyra í slopp og með rauða kollhúfu.
– Hvað er þér á höndum, vinur? spurði hann.
Hjarta gamla mannsins barðist um, augun fylltust af tárum, og
skjálfandi röddu sagði hann aðeins:
– Yðar tign! … sýnið mér þá kristilegu miskunnsemi …
Mínskí leit snöggt á hann og stokkroðnaði, tók svo í hönd hans,
leiddi hann inn á skrifstofu sína og lokaði á eftir sér dyrunum.
– Yðar tign! hélt gamli maðurinn áfram, – ekki tjáir að sýta hið
liðna; látið mig í það minnsta hafa vesalings Dúnju mína aftur. Þér
hafið jú fengið að gamna yður með henni, en ekki tortíma henni að
óþörfu.
– Gert er gert og verður ekki aftur tekið, sagði ungi maðurinn
í algeru fáti, – ég er sekur frammi fyrir þér og það gleður mig að
geta beðið um fyrirgefningu þína, en láttu þér ekki detta í hug að
ég yfirgefi Dúnju: hún verður hamingjusöm, því lofa ég þér. Hvaða
gagn hefur þú af henni? Hún elskar mig og hefur vanist nýjum
lifnaðarháttum. Hvorugt ykkar gæti gleymt því sem gerðist.
Síðan stakk hann einhverju upp í ermina á stöðvarstjóranum,
opnaði dyrnar, og allt í einu var gamli maðurinn, án þess að skilja
sjálfur hvernig það gerðist, staddur úti á götu.
Hann stóð lengi hreyfingarlaus en kom loks auga á peninga-
vöndul undir uppábrotinu á jakkaerminni; hann dró vöndulinn
fram og rúllaði sundur nokkrum þvældum fimmtíu rúblna seðlum.
Aftur fylltust augun tárum; það voru gremjutár. Hann vöðlaði
seðlunum saman, kastaði þeim í götuna, tróð á þeim með hælnum
og gekk burt … Þegar hann hafði gengið nokkur skref nam hann
staðar, hugsaði sig um … og sneri við … en seðlarnir voru horfnir.
Vel klæddur ungur maður hljóp í átt að leiguvagni þegar hann kom