Milli mála - 2018, Síða 154
UM VARLAM TÍKHONOVÍTSJ SHALAMOV
154 Milli mála 10/2018
Shalamov sleppt úr fangabúðunum en gert að dvelja um skeið í
Magadan, stærstu borginni í Kolyma. Eftir dauða Stalíns árið 1953
fékk hann leyfi til að flytja þaðan. Shalamov fékk uppreisn æru 1956
og jafnframt leyfi til að snúa aftur til Moskvu þar sem hann fór aftur
að starfa sem blaðamaður.
Í Moskvu hóf Shalamov aftur að yrkja ljóð og semja sögur. Árin,
sem hann eyddi í hinum óblíðu og miskunnarlausu þrælkunar-
búðum Kolyma-héraðs í Síberíu, urðu honum nú að yrkisefni og
hann samdi magnaðar frásagnir um lífið í búðunum. Það reyndist
erfitt að fá sögurnar birtar en þær gengu manna á milli í samízdat-
útgáfum.2 Shalamov fékk samt útgefnar fimm ljóðabækur, m.a.
Ognivo (Eldfæri) 1961, Doroga í súdba (Vegur og örlög) 1967 og
Moskovskíje oblaka (Ský yfir Moskvu) 1972.
Sögur Shalamovs birtust ekki á prenti í Rússlandi fyrr en
mörgum árum síðar, enda bannaðar þar í landi langt fram á níunda
áratug aldarinnar. Handritinu að Sögunum frá Kolyma var smyglað
til Bandaríkjanna 1966 af Clarence Brown, prófessor við Princeton-
háskóla. Í nokkur ár, 1970–1976, birtist saga eftir Shalamov í flestum
heftum tímaritsins New Review, sem var gefið út af rússneskum inn-
flytjendum í Bandaríkjunum. Það var Shalamov til nokkurs ama og
snemma á áttunda áratugnum neyddist hann, orðinn heilsutæpur og
háður greiðslum frá Rithöfundasambandi Sovétríkjanna, til að lýsa
því yfir opinberlega, í bókmenntatímaritinu Líteratúrnaja gazeta, að
hann hefði aldrei sent neitt efni til útlanda og að hann væri dyggur
og trúr þegn Sovétríkjanna. Síðustu ár ævinnar átti Shalamov auma
vist á dvalarheimili fyrir aldraða. Aðstæður þar voru síður en svo
til fyrirmyndar og KGB hafði alla tíð auga með honum. Árið 1981
var hann svo úrskurðaður andlega sjúkur og í janúar 1982 var hann
fluttur á geðsjúkrahús, nánast klæðlaus í miklum kulda, þar sem
hann lést úr lungnabólgu þremur dögum síðar.
Heildarútgáfa sagnanna kom fyrst út á rússnesku í Lundúnum
1978. Til að vernda Shalamov tóku ritstjórarnir fram að útgáfan
væri án vitundar höfundarins. En í Sovétríkjunum var engin saga
gefin út fyrr en árið 1988 þegar perestrojka, umbótaáætlun Míkhaíls
Gorbatsjov, var farin að festa sig í sessi.
2 Samízdat þýðir bókstaflega sjálfsútgáfa. Meðan ströng ritskoðun gilti í Sovétríkjunum var algengt
að verk rithöfunda væru prentuð eða fjölrituð ólöglega og þeim dreift leynilega til lesenda.