Milli mála - 2018, Page 157
ÁSLAUG AGNARSDÓTTIR
Milli mála 10/2018 157
Varlam Shalamov
Að næturlagi1
Kvöldverðinum var lokið. Glebov sleikti skálina í rólegheitum, sópaði brauðmolunum varfærnislega af borðinu í vinstri
lófann og bar þá upp að munninum. Hann gleypti molana ekki,
fann hvernig gráðugt, þykkt munnvatnið lék um þessa agnar-
smáu brauðbita. Glebov hefði ekki getað svarað því hvort brauðið
bragðaðist vel. Gott bragð var eitthvað allt annað. Það var ekki
hægt að bera það saman við þessa áköfu tilfinningu algleymis sem
fylgdi því að borða mat. Glebov var ekkert að flýta sér að kyngja.
Brauðið bráðnaði af sjálfu sér í munni hans, bráðnaði hratt.
Innfallin, glansandi augu Bagretsovs einblíndu á munninn á
Glebov. Sá viljastyrkur var ekki til sem gat hjálpað mönnum að
líta af fæðu sem var að hverfa upp í munn annars manns. Glebov
kyngdi munnvatninu og um leið beindi Bagretsov augunum í átt
að sjóndeildarhringnum, á stóra appelsínugula tunglið sem var að
skríða upp á himininn.
„Nú verðum við að fara,“ sagði Bagretsov. Þeir lögðu þögulir
af stað eftir stígnum sem lá að hæðinni og klifruðu upp að litlum
slóða sem lá fram með bjarginu. Þótt sólin væri nýsest, var kuldi
þegar kominn í steinana sem á daginn brenndu berar iljar fanganna
gegnum þunna gúmmískóna. Glebov hneppti vattfóðraða jakkanum
að sér. Honum hlýnaði ekkert á göngunni.
„Er langt eftir enn?“ hvíslaði hann.
„Já, nokkuð langt,“ svaraði Bagretsov lágum rómi.
Þeir settust niður til að hvíla sig. Þeir höfðu ekkert að segja og
þurftu heldur ekki að hugsa – allt var skýrt og augljóst. Við enda
slóðans voru hrúgur af muldum steinum og þurrum mosa sem hafði
verið rifinn upp úr jörðinni.
1 Þýtt eftir texta í: Варлам Шаламов, Колымские Рассказы, 2. útg., París: YMCA-PRESS, 1982.