Milli mála - 2018, Page 158
AÐ NÆTURLAGI
158 Milli mála 10/2018
„Ég hefði getað gert þetta einn,“ glotti Bagretsov, „en það er
skemmtilegra að hafa félagsskap. Og svo hugsaði ég líka að við
værum gamlir vinir …“
Þeir höfðu verið fluttir hingað á sama skipi fyrir ári.
Bagretsov nam staðar. „Leggstu. Annars sjá þeir okkur.“
Þeir lögðust niður og fóru að henda steinunum til hliðar. Hér
voru engir stórir hnullungar sem þurfti fleiri en tvo menn til að
flytja úr stað, vegna þess að þeir sem höfðu unnið að því að hrúga
þeim upp um morguninn voru ekkert sterkari en Glebov.
Bagretsov bölvaði lágt. Hann hafði meitt sig á fingrinum og það
blæddi úr sárinu. Hann sáldraði sandi á það, reif lítið vattstykki úr
jakkanum sínum og þrýsti á sárið en það hætti ekki að blæða.
„Skortur á storkuefnum,“ sagði Glebov áhugalaus.
„Ertu kannski læknir, eða hvað?“ spurði Bagretsov og saug
fingurinn.
Glebov þagði. Honum fannst mjög langt síðan hann hafði starfað
sem læknir. Hafði hann einhvern tíma verið læknir? Of oft fannst
honum heimurinn handan við fjöllin og hafið vera eins og hálfgerður
draumur, eða hugarburður. Raunveruleikinn bjó í einni mínútu,
einni klukkustund, einum degi í einu, frá lúðrakallinu að morgni
þar til vinnu lauk að kvöldi. Hann var aldrei með neinar vangaveltur
um framhaldið; hann hafði ekki orku í slíkt. Það gilti reyndar um
þá alla.
Hann vissi ekkert um fortíð annarra manna í búðunum og hafði
ekki áhuga á að vita neitt um þá. En ef Bagretsov segðist á morgun
hafa verið doktor í heimspeki eða marskálkur í flughernum, myndi
Glebov trúa honum án þess að velta því frekar fyrir sér. Hafði hann
einhvern tíma sjálfur verið læknir? Hann hafði ekki einungis misst
hæfileikann til að meta slíkt heldur einnig athyglisgáfuna. Glebov
sá hvernig Bagretsov saug blóð úr óhreinu sárinu en sagði ekki
neitt. Sýnin smaug bara inn í vitund hans en hann skorti vilja til
að bregðast við henni, reyndi það ekki einu sinni. Hann var aðeins
meðvitaður um eitt, og það átti mögulega ekkert skylt við mannlega
hugsun lengur, en það var sá ásetningur að bera burt steinana eins
hratt og mögulegt var.
„Þetta er líklega á miklu dýpi, ekki satt?“ spurði Glebov þegar
þeir tóku sér stutt hlé frá vinnunni til að hvíla sig.