Milli mála - 2018, Page 163
VARLAM SHALAMOV
Milli mála 10/2018 163
konar síðustu þvermóðsku – að deyja á sjúkrahúsi einhvers staðar,
í rúmi, í viðurvist annars fólks, ekki úti á víðavangi, í brunagaddi
eða í fangabúðarskála innan um fúkyrði, skít og algjört skeytingar-
leysi annarra manna. Hann ásakaði ekki hina fyrir hugsunarleysið.
Hann hafði fyrir löngu áttað sig á orsök þessarar andlegu deyfðar
og kulda. Frostið, sem frysti hráka í lausu lofti, náði líka inn í sálir
mannanna. Ef bein gætu frosið, gat heilinn líka frosið og sljóvgast,
og jafnvel sálin. Í heljargreipum frostsins var ómögulegt að hugsa.
Og sál sem frýs og skreppur saman verður kannski köld um alla
eilífð. Potashníkov hafði tapað öllu nema lönguninni til að lifa af,
þrauka í nístingsköldu frostinu.
Potashníkov gleypti í sig heita súpuna, tuggði brauðið sitt og
hélt af stað út á vinnusvæðið. Það var varla að fætur hans létu að
stjórn. Áður en vinnan hófst var vinnuflokknum stillt upp í röð og
feitlaginn maður, rjóður í framan, klæddur í hvíta úlpu með hatt og
í stígvélum, hvoru tveggja úr hjartarskinni frá Jakútíu, gekk með-
fram röðinni. Hann mændi framan í tærð, óhrein andlit mannanna.
Verkstjórinn kom aðvífandi og sagði kurteislega við manninn með
hjartarskinnshattinn:
„En ég fullvissa yður, Aleksandr Jevgeníjevítsj, að það er enginn
slíkur í minni sveit. Leitið til Soboljevs og glæpamanna hans, þetta
eru allt saman menntamenn hér, Aleksandr Jevgeníjevítsj – ein-
tómt vesen.“
Maðurinn með hjartarskinnshattinn hætti að virða mennina fyrir
sér og sneri sér til verkstjórans.
„Verkstjórar þekkja ekki sína menn, vilja ekki þekkja þá, vilja
ekki aðstoða okkur,“ sagði hann hásum rómi.
„Það er rétt hjá yður, Aleksandr Jevgeníjevítsj.“
„Ég skal sýna þér hvernig á að fara að. Hvað heitirðu?“
„Ívanov, Aleksandr Jevgeníjevítsj.“
„Fylgstu með! Jæja, strákar, takið eftir!“ Maðurinn með
hjartarskinnshattinn tók sér stöðu fyrir framan vinnuflokkinn.
„Yfirstjórnina vantar smiði til að smíða kassa undir moldar-
flutninga.“
Allir þögðu.
„Þarna sjáið þér, Aleksandr Jevgeníjevítsj,“ hvíslaði verkstjórinn.
Allt í einu heyrði Potashníkov sjálfan sig segja: „Ég er smiður.“