Milli mála - 2018, Side 164
SMIÐIR
164 Milli mála 10/2018
Hann tók eitt skref fram.
Hægra megin við hann steig annar maður fram án þess að segja
orð. Potashníkov þekkti hann. Þetta var Grígorjev.
„Jæja,“ sagði maðurinn með hjartarskinnshattinn og sneri sér að
verkstjóranum. „Heilalausi fáviti! Strákar, eltið mig.“
Potashníkov og Grígorjev drögnuðust af stað á eftir manninum
með hjartarskinnshattinn. Hann nam staðar.
„Ef við höldum áfram á þessum hraða,“ sagði hann með sinni
hásu rödd, „náum við ekki á leiðarenda fyrir hádegi. Þannig að ég
ætla að fara á undan en þið gefið ykkur fram við Sergejev, verk-
stjórann á verkstæðinu. Vitið þið hvar smíðaverkstæðið er?“
„Já, já, við vitum það,“ sagði Grígorjev hátt og snjallt. „Verið
svo vænir að gefa okkur að reykja.“
„Þessa ósk held ég að ég hafi heyrt áður,“ muldraði maðurinn
með hjartarskinnshattinn, og án þess að taka pakkann úr vasanum,
teygði hann fingurna í tvær sígarettur.
Potashníkov gekk á undan og hugsaði ákaft. Í dag yrði hann inni
á hlýju smíðaverkstæðinu við að brýna axir og smíða axarsköft. Og
skerpa sagir. Það yrði óþarft að flýta sér. Hann gæti drepið tímann
fram að hádegi við að finna til verkfæri, skrá sig fyrir þeim eða við
að leita uppi lagervörðinn. Og þegar liði að kvöldi og komið væri
í ljós að hann kynni hvorki að smíða axarsköft né skekkja sagar-
tennur, yrði honum sparkað og á morgun yrði hann kominn aftur í
gamla vinnuflokkinn. En í dag myndi hann dvelja inni í hlýjunni.
Og kannski kæmist hann upp með að vera smiður á morgun líka,
og jafnvel hinn daginn, það er að segja ef Grígorjev væri í raun og
veru smiður. Hann gæti verið aðstoðarmaður Grígorjevs. Veturinn
var senn liðinn og þegar sumarið kæmi, stutt sumarið, myndi hann
hafa það af.
Potashníkov staðnæmdist og beið eftir Grígorjev.
„Kanntu þetta ... að smíða?“ spurði hann og hélt niðri í sér
andanum af eftirvæntingu.
„Sjáðu til,“ sagði Grígorjev glaðlega, „ég var í framhaldsnámi
við mála- og bókmenntafræðideild Moskvuháskóla. Ég hugsa að
sérhver maður með háskólagráðu hljóti að geta höggvið til axarsköft
eða skerpt sagir. Ég tala nú ekki um ef maður stendur við hliðina
á heitum ofni.“