Milli mála - 2018, Page 167
MILLI MÁLA
Milli mála 10/2018 167
Kristín Guðrún Jónsdóttir
Háskóli Íslands
Um Silvinu Ocampo
Árið 1940 kom út bók í Argentínu sem átti eftir að njóta ómældra vinsælda í Rómönsku-Ameríku. Það var Antología de
la literatura fantástica eða Úrvalsrit fantasíubókmennta. Í safninu eru
sögur frá ólíkum tímabilum og heimshlutum, allt frá ævafornum
kínverskum sögum til Edgars Allans Poe og Franz Kafka. Ritstjórar
bókarinnar voru þrír: þau Silvina Ocampo, eiginmaður hennar
Adolfo Bioy Casares, og vinur þeirra, Jorge Luis Borges. Öll höfðu
þau brennandi áhuga á fantasíuforminu eins og átti eftir að koma
fram í verkum þeirra þótt með ólíkum hætti væri.
Silvina Ocampo fæddist árið 1903 í Búenos Aíres og var yngst
sex dætra efnahjónanna Ramonu Aguierre og Manuels Silvinos
Ocampo. Elst systranna var Victoria Ocampo, stofnandi og ritstjóri
forlagsins Sur og samnefnds menningartímarits, sem var málpípa
Sur-hópsins svonefnda, en ofangreint þríeyki skipaði hluta þess.
Margir telja ritið eitt mesta menningarrit sem hefur litið dagsins
ljós í Rómönsku-Ameríku. Það markaði að mörgu leyti stefnuna
fyrir argentínskar nútímabókmenntir. Ung að árum nam Silvina
teikningu og málaralist í París undir handleiðslu Fernands Léger og
Giorgios de Chirico. Silvina átti löngum eftir að sameina mynd- og
ritlist sína; hún myndskreytti meðal annars eigin bækur og annarra.
Rithöfundarferill hennar hófst árið 1937 þegar hún gaf út
smásagnasafnið Viaje olvidado (Gleymt ferðalag). Ríflegur ára-
tugur leið þar til hún gaf út næsta smásagnasafn, Autobiografía de
Irene (Sjálfsævisaga Irene, 1948). Í millitíðinni sendi hún frá sér
þrjár ljóðabækur: Enumeración de la patria (Upptalning föðurlands
míns, 1942), Espacios métricos (Háttbundin rými, 1945) og Los
sonetos del jardín (Sonnetturnar í garðinum, 1948). Allar hlutu þær