Milli mála - 2018, Side 171
MILLI MÁLA
Milli mála 10/2018 171
Silvina Ocampo
Rekkjuvoð jarðar1
„Garðyrkjumaður, hagur við trjá- og blómarækt óskar eftir vinnu. Besares 451.“ Hún brosti. Auglýsingin hafði legið
í meira en ár innan um mölkúlur í peysuvasanum hennar. Hún
vöðlaði henni saman og kastaði í gólfið. Hallaði síðan höfðinu aftur á
körfustólinn, varpaði öndinni léttar og sagði við mann sinn: „Mikið
erum við heppin að hafa svona góðan garðyrkjumann.“ Maðurinn
gaut augum á hana yfir dagblaðið. „Alvöru garðyrkjumann“, hélt
hún áfram, „sem hlúir svo blíðlega að plöntunum og þykir jafn vænt
um þær og sín eigin börn.“ Þegar hún sagði þessi orð fannst henni
hún vera lukkunnar pamfíll: börn hennar voru hraust, þetta var
dýrðardagur og hún hafði fundið góðan garðyrkjumann. Þarna sat
hún á svölunum, sveipuð hvíta kjólnum og skynjaði það sem allar
hvítklæddar konur á sólbjörtum degi hljóta að skynja: henni fannst
hún vera gagnsæ, ópersónuleg eins og sjálfur dagurinn, umkringd
fjölda blóma sem biðu hennar. Hún fór í hanskana, tók garðklipp-
urnar og gekk niður í garðinn með sólhlífina sem hún notaði til að
verja sig gegn hitanum. Það var aðlaðandi mynd sem mætti henni
í speglinum.
Reykurinn úr bálköstunum liðaðist yfir innsta hluta garðsins
og sólargeislarnir urðu bláhvítir. Hann sat kyrr á milli laufa
klifurplantnanna svo ekki sást í himininn. Þetta var fegursti tími
dagsins, það get ég fullyrt án þess að hætta á að fara rangt með, því
þegar maður er í garði að degi til getur hver stund verið sú fegursta.
Við verðum bara ekki vör við það þegar við erum innanhúss, og svo
kemur fegurðin okkur alltaf jafn mikið á óvart, eins og við hefðum
aldrei gert ráð fyrir henni. Fuglarnir tóku að syngja í kapp við
1 Þýtt eftir texta í: Silvina Ocampo, Y así sucesivamente, Barcelona: Tusquets,1987. Sagan birtist
fyrst í tímaritinu Sur 1938.