Saga - 2019, Page 7
F O R M Á L I R I T S T J Ó R A
Hún er falleg, myndin sem prýðir forsíðu Sögu. Steinunn Thorsteinsson og Sig -
þrúður Brynjólfsdóttir stilla sér upp í faðmlögum á ljósmyndastofunni þar sem
þær unnu báðar og horfast ástúðlega í augu. Íris Ellenberger, Hafdís Erla Haf -
steins dóttir og Ásta Kristín Benediktsdóttir skrifa um ljósmyndina sem sögulega
heimild og setja hana í samhengi við hugmyndir um rómantíska vináttu kvenna
við upphaf tuttugustu aldar. Íris, Hafdís og Ásta hafa undanfarin misseri unnið
að nýstárlegri rannsókn á hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum,
undir yfirskriftinni Hinsegin huldukonur, og verður spennandi að sjá frekari af -
rakst ur þess verkefnis.
Álitamál Sögu að þessu sinni snýr að sögulegum tengslum Íslands og Dan -
merkur, máli sem var mjög í deiglunni á liðnu ári. Tveir íslenskir og tveir danskir
fræðimenn voru fengnir til að fjalla um efnið frá ólíkum sjónarhólum, þau Søren
Mentz, Anna Agnarsdóttir, Michael Bregnsbo og Katla Kjartansdóttir.
Í heftinu eru þrjár ritrýndar greinar. Í þeirri fyrstu skrifar Erla Hulda Hall -
dórs dóttir um sagnaritun íslenskra kvenna fyrir tíma akademískrar kvennasögu.
Erla Hulda fjallar um þessa sagnaritun sem viðbragð við karllægri þjóðarsögu þar
sem hlutur kvenna var iðulega hunsaður og það hvernig henni var beitt til að
styrkja stöðu og ímynd kvenna sem fullgildra þátttakenda í samfélaginu. Önnur
ritrýnd grein heftisins er eftir Árna Daníel Júlíusson. Þar er markmiðið að grafast
fyrir um orsakir þess að mannvíg lögðust af í íslensku samfélagi um miðja sext-
ándu öld en þau voru lögleg dráp sem höfðu ákveðna stöðu í réttarkerfinu og
höfðu verið reglulegur viðburður í landinu fram að því. Árni Daníel færir rök
fyrir því að þróunin tengist breytingum á hlutverki og stöðu ríkisvaldsins á
Íslandi á þessum tíma. Loks skrifar Arnór Gunnar Gunnarsson grein um hina svo-
kölluðu Rainbow Navigation-deilu sem snerist um það hvaða fyrirtæki, íslensk
eða bandarísk, ættu að hafa leyfi til vöruflutninga fyrir bandarísku herstöðina á
Miðnesheiði. Arnór setur deiluna í samhengi við ástandið í kalda stríðinu um
miðjan níunda áratug síðustu aldar og tengsl íslensku skipafélaganna við stjórn-
völd á Íslandi.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir leiðir fram áhugavert skjal í þættinum Úr skjala-
skápnum og segir frá heimild sem ekki hefur hlotið mikla athygli hingað til: Skrá
yfir 519 muni úr eigu Skúla Magnússonar sem seldir voru hæstbjóðendum á
uppboði í Viðey árið 1794, eftir að Skúli hafði verið knúinn til að segja af sér emb-
ætti og hald lagt á eigur hans. Jóhanna skoðar hvaða munir þetta voru og hverjir
keyptu þá. Þá flytja Guðbrandur Benediktsson og Anna Dröfn Ágústsdóttir les-
endum Sögu fregnir úr safnaheiminum og skrifa um hina metnaðarfullu nýju
grunnsýningu Sjóminjasafns Reykjavíkur, Fiskur og fólk, sem opnaði sumarið 2018.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 5