Saga - 2019, Side 14
svöruðu sig ágætlega við ríkjandi viðmið um æskilega kvenlega
hegðun og framkomu.12 Þær stofnuðu til tilfinningaríkra sambanda,
unnu saman og bjuggu saman jafnvel um ára eða áratuga skeið en
virðast ekki hafa litið á sig sem samkynhneigðar. Sumir þeirra fræði-
manna sem fjallað hafa um efnið, líkt og Lillian Faderman, ganga svo
langt að lýsa rómantísku vináttunni sem stofnun sem líkt og hjóna-
band þjónaði ákveðnum tilgangi. Sem slík hafi þessi stofnun átt sitt
blómaskeið á átjándu og nítjándu öld en fjarað hafi undan henni
þegar líða tók á þá tuttugustu eftir því sem vitneskja um samkyn-
hneigð varð almennari og samfélög hinsegin fólks tóku að myndast.13
Við vitum ekkert um samband Steinunnar og Sigþrúðar umfram
það að þær voru báðar ljósmyndarar og lifðu og hrærðust í heimi
ljósmyndunar. Þó má lesa myndina af þeim sem eins konar tákn-
mynd hinnar rómantísku vináttu þar sem engin skýr mörk eru dreg-
in milli vinatengsla og rómantískra sambanda. Þvert á móti skarast
þessi fyrirbæri á gráu svæði þar sem erfitt er að greina annað frá
hinu. Í því sambandi skipta aðstæður kvennanna máli. Jóhanna,
Sigþrúður og Steinunn tilheyrðu allar efri stéttalögum Reykjavíkur
við upphaf tuttugustu aldar sem tengdust borgarastéttum erlendis
sterkum böndum, sérstaklega í Kaupmannahöfn. Líklegt verður því
að telja að þær hafi þekkt til rómantískrar vináttu.
Stéttarstaða þeirra hafði einnig áhrif á það lífsviðurværi sem þær
gátu kosið sér en valkostirnir voru ekki ýkja margir. Það leiddi til
þess að efri stéttar konur völdu tiltekin störf, til dæmis kennslu,
umfram önnur sem ýtti undir myndun kvennarýma innan þessara
starfsgreina. Ein þeirra var ljósmyndun sem þótti ásættanlegt starf
fyrir heldri konur á Íslandi og víða í Norður-Evrópu. Fyrstu ís -
lensku konurnar sem lærðu ljósmyndun voru Nicoline Weywadt,
Anna Schiöth og Gunhild Thorsteinsson en þær voru allar af efna-
fólki komnar og af dönskum uppruna.14 Jóhanna, Steinunn og
Sigþrúður tilheyrðu næstu kynslóð kvenkyns ljósmyndara sem nutu
íris , hafdís erla og ásta kristín12
12 Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Surpassing the Love of Men: Romantic Friendship
and Love between Women from the Renaissance to the Present (London: Junction
Books 1981), bls. 15–20; Stacey J. Oliker, Best Friends and Marriage. Exchange
Among Women (Berkeley: University of California Press 1989), bls. 26–30.
13 Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Odd Girls and Twilight Lovers. A History of
Lesbian Life in Twentieth Century America (New york: Columbia University Press
1991), bls. 1–6.
14 Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 106, 196, 296.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 12