Saga - 2019, Síða 16
dæmis Jóhönnu og Sigríði Zoëga, auðnaðist einnig að fara til frekara
náms erlendis og leggja þannig grunninn að sjálfstæðum atvinnu-
rekstri í félagi við aðra kvenkyns ljósmyndara að námstímanum
loknum.
Í rannsóknum á rómantískri vináttu kvenna hafa hugmyndir um
tengslanet og rými spilað stórt hlutverk. Þá er sérstaklega horft til
þátta sem sköpuðu kvennarými eða breyttu þeim, til dæmis þétt -
býlisvæðingar og breyttra atvinnuhátta.18 Guðrún Ólafsdóttir hefur
bent á að Reykjavík um aldamótin 1900 var sannkölluð „kvenna-
borg“ en það átti reyndar einnig við um flesta þéttbýlisstaði í Norður-
Evrópu á þessum tíma.19 Konur flykktust til bæja og borga í ríkari
mæli en karlar því þar áttu þær auðveldara með að sjá fyrir sér en
uppi til sveita. Á Íslandi var bæjarlífið sérstaklega aðlaðandi fyrir
ekkjur og ógiftar konur því það veitti þeim fleiri tækifæri en sveit-
irnar til að sjá fyrir sér og sínum. Konur gátu selt fæði og húsnæði,
til dæmis til þeirra fjölmörgu námsmanna sem bjuggu í bænum, og
stundað ýmiss konar launavinnu eins og heimilisstörf, saumaskap
og kennslu. Konur í þéttbýli um aldamótin 1900 áttu þannig kost á
að lifa sjálfstæðara lífi en áður. Aukin ásókn kvenna til bæjanna
hafði í för með sér að kvenkyns íbúar urðu talsvert fleiri en karlkyns
íbúar. Árið 1910, um það leyti sem Jóhanna Pétursdóttir myndaði
vinkonur sínar Steinunni Thorsteinsson og Sigþrúði Brynjólfsdóttur,
voru 55% íbúa Reykjavíkur kvenkyns.20 Í bænum var því allmikill
fjöldi ógiftra kvenna sem lifðu sjálfstæðu lífi eða í félagi við aðrar
konur. Steinunn, Sigþrúður og Jóhanna voru allar í þeim hópi fram
til ársins 1922 þegar Jóhanna gekk í hjónaband sem átti líklega þátt
í að hún hætti að starfa sem ljósmyndari árið 1924. Steinunn og
Sigþrúður voru aftur á móti ógiftar alla sína ævi.21 Kynjamisræmið
íris , hafdís erla og ásta kristín14
18 Sjá til dæmis: Lillian Faderman, Odd Girls and Twilight Lovers, bls. 13–18; Tone
Hellesund, „Queering the Spinsters: Single Middle-Class Women in Norway,
1880–1920“, Journal of Homosexuality 54:1–2 (2008), bls. 21–48, 41–44.
19 Guðrún Ólafsdóttir, „Reykvískar konur í ljósi manntalsins 1880“, Konur skrifa
til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Ritstj. Valborg Bentsdóttir, Guðrún Gísladóttir
og Svanlaug Baldursdóttir (Reykjavík: Sögufélag 1980), bls. 79–95, einkum bls.
85; Tone Hellesund, „Queering the Spinsters“, bls. 23.
20 Helgi Skúli Kjartansson, „Fólksflutningar til Reykjavíkur 1850–1930“, Reykjavík
í 1100 ár. Ritstj. Helgi Þorláksson. Safn til sögu Reykjavíkur (Reykjavík:
Sögufélag 1974), bls. 255–284, einkum bls. 271–272.
21 Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, bls. 232, 352. Árið 1911 opin-
beruðu Sigþrúður og Jens Sigurðsson „gasmeistari í Reykjavík“ trúlofun sína
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 14