Saga - 2019, Page 55
erla hulda halldórsdóttir
Sögulegir gerendur og aukapersónur
Kyngervi og sagnaritun þjóða(r)
Þegar íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið
1915 stóðu þær frammi fyrir nýjum áskorunum sem „löglegir borgarar
þjóðfélagsins“, og þurftu í samræmi við hin nýfengnu réttindi að endur-
skilgreina stöðu sína og gerendahæfni. Í greininni eru færð rök fyrir því
að íslenskar konur, einkum þær sem tengdust kvennahreyfingunni, hafi
á meðvitaðan hátt skráð sögu kvenna löngu fyrir daga akademískrar
kvennasögu. Þær leituðu uppi og skrifuðu um afrek kvenna bæði í fortíð
og samtíð og byggðu á þann hátt undir og styrktu sjálfsvitund kvenna
sem lögmætra sögulegra og þar með pólitískra gerenda í samfélaginu.
Um konur fortíðar var helst skrifað í formi æviþátta á síðum kvenna -
blaða, í sjálfsævisögum kvenna eða í sérstökum bókum um svokallaðar
kvenhetjur. Afrek kvenna í samtímanum gleymdust ekki því þau voru
vandlega skráð á síðum kvennablaðanna um leið og þau áttu sér stað.
Segja má að konur hafi skrifað sína eigin menningar- og félagssögu í
gegnum tímarit og blöð kvenna, endurminningar og sjálfsævisögur á
fyrri hluta tuttugustu aldar. Þessi skrif íslenskra kvenna eru skoðuð í
samhengi við erlendar rannsóknir á sagnaritun kvenna.
Inngangur
„Konurnar eiga enga sögu, segja sumir, en aðrir að saga kvenna hafi
bara gleymst. En sú er oft sök til þess, að settur hefir verið punktur á
skökkum stað, það er að segja of fljótt í frásögn í sagnfræðiritum og
sögukennslubókum, og mörgu er þar af leiðandi logið með þögninni.“1
Þegar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915
hófst nýtt tímabil í sögu íslenskra kvenna, og þar með í sögu þjóðar,
þar sem þær fengu loks tækifæri til að móta eigið líf sem þegnar
Saga LVII:1 (2019), bls. 53–86.
Erla Hulda Halldórsdóttir, ehh@hi.is
G R E I N A R
1 Anna Sigurðardóttir, „Margt smátt gerir eitt stórt. Samtíningur og sitt hvað til
sögu íslenzkra kvenna í ellefu hundruð ár“, 19. júní 1974, bls. 38.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 53