Saga - 2019, Page 57
þær fengju ekki hlutdeild í samfélaginu sem fullgildir borgarar nú
þegar þær nutu sömu réttinda og karlar. Hvað var það sem setti
þeim skorður?6 Þær höfðu kannski ekki svör á reiðum höndum en
eitt af því sem þær voru uppteknar af var skortur á sjálfstrausti eins
og skilja má af orðum Guðrúnar Björnsdóttur hér að framan. Erlendis
voru kvenréttindakonur þegar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar
uppteknar af því að skrá sögu kvennahreyfinga sem var þá liður í
að styrkja pólitíska sjálfsmynd þeirra og gerendahæfni.7
Unnið er út frá þeirri tilgátu að konur hafi haft sterka löngun til
að sjá og heyra sögu formæðra sinna, því án sögu er enginn grunnur
til að standa á sem sjálfstæðir einstaklingar og fullgildir þegnar í
samfélaginu. Hér er sótt í handraða ítalska heimspekingsins Adriana
Cavarero sem hefur skrifað um þrá mannfólksins til að eiga sér
sögu. Sú löngun stafar af því að þrátt fyrir allt sem við eigum sam-
eiginlegt með öðrum og getum samsamað okkur við þá upplifum
við okkur sem einstök. Hver manneskja hefur sína sjálfsverund og
sjálfsmynd en þráir að heyra sögu sína sagða. Það er í gegnum slíka
frásögn sem manneskja öðlast sjálfsskilning og lærir að þekkja sjálfa
sig.8 Þótt Cavarero ræði fyrst og fremst um einstaklinga og sjálfs/
ævisögulegar frásagnir er spennandi að yfirfæra þessa hugmynd
yfir á konur og sögu þeirra, bæði á persónulegum og kvennapóli-
tískum vettvangi.9
sögulegir gerendur og aukapersónur 55
6 Um miðbik tuttugustu aldar má lesa greinar um þetta efni í Nýju kvennablaði,
Melkorku, 19. júní og Húsfreyjunni. Áður voru það Kvennablað Bríetar Bjarn -
héðins dóttur og 19. júní Ingu Láru Lárusdóttur.
7 Sjá t.d. Krista Cowman, „„There is so much, and it will all be history“. Feminist
Activists as Historians, the Case of British Suffrage Historiography, 1908–2007“,
Gendering Historiography. Beyond National Canons. Ritstj. Angelika Epple og
Angelika Schaser (Frankfurt: Campus Verlag 2009), bls. 141–162.
8 Adriana Cavarero, Relating Narratives. Storytelling and Selfhood. Inngangur og
þýðing úr ítölsku Paul A. Kottman (London: Routledge 2000). Þessi hugmynd
er rauður þráður í bók Cavarero en sjá sérstaklega bls. 1–4, 32–45, 67–77.
9 Hugtakið sjálfs/ævisöguleg (e. auto/biobiographical), með skástriki, er komið frá
félagsfræðingnum Liz Stanley en hún hafði með bók sinni The Auto/Biographical
I mikil áhrif á femínískar rannsóknir á sjálfs/ævisögulegum skrifum. Hug -
takinu er ætlað að fanga það flókna samspil sem er milli viðfangsefnisins og
fræðimannsins og þeirra mörgu frásagna sem úr er að velja og hægt er að skrifa
um líf sem var lifað. Sjá Liz Stanley, The Auto/Biographical I. The Theory and
Practice of Feminist Auto/Biography (Manchester: Manchester University Press
1992).
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 55