Saga - 2019, Page 59
sagnaritun kvenna í ýmsum Evrópulöndum, og greinasafnið Gen -
dering Historiography. Beyond National Canons sem út kom árið 2009.12
Í þessum ritum er bæði fjallað um konur sem skrifuðu sagnfræði
eða söguleg verk án þess að hafa lokið háskólaprófi í sagnfræði og
konur sem voru menntaðir sagnfræðingar en störfuðu ekki innan
háskólanna. Skilin milli hópanna eru ekki alltaf skýr í þessum verk-
um en konur úr báðum hópum hafa verið kallaðar amatör-sagn -
fræðingar (e. amateur historians) sem á íslensku mætti kalla áhuga-
sagnfræðinga. Viðfangsefni þeirra kvenna sem fengu stöður við
háskóla á fyrstu áratugum tuttugustu aldar eru einnig til umfjöll -
unar í sumum þessara verka og skoðað hvernig þeim gekk að fóta
sig í hinum akademíska heimi sagnfræðinnar og þá ekki síst hvort
þær lögðu stund á rannsóknir sem flokka má undir sögu kvenna
eða hvort þær kusu svokölluð karlleg viðfangsefni.13
Til þessa hafa ekki verið gerðar sambærilegar rannsóknir í ís -
lensku samhengi en áður hef ég þó bent á að ýmis skrif kvenna frá
um 1950 um „venjulegar“ konur, nokkurs konar hversdagshetjur,
megi túlka sem uppreisn kvenna gegn karllægri sögu skoðun og
hefðbundinni sagnaritun.14 Íslenskar konur hafa heldur ekki fengið
inni á síðum fræðirita sem svokallaðir alþýðufræðimenn en það er
hugtak sem notað hefur verið yfir hérlenda sagnaritara sem skrifað
hafa um sögulegt efni án þess að hafa menntun í sagn fræði. Ingi
Sigurðsson lýsir því þannig að alþýðufræðimenn fáist alla jafna við
þrengri viðfangsefni en menntaðir sagnfræðingar, leggi áherslu á
frásögn fremur en fræði, skrifi oft fjörlegan texta og mikil áhersla sé
lögð á persónusögu. Skrif margra þeirra kvenna sem hér verða
nefndar mætti fella undir þennan hatt en þeir alþýðlegu sagna rit -
arar sem Ingi fjallar um eru allir karlar.15
Ritun sögu er enda pólitísk, kynjapólitísk í því samhengi sem hér
um ræðir. Það má líta á söguna sem stað minninga þar sem nauð -
sögulegir gerendur og aukapersónur 57
12 Storia della Storiografia 46 (2004); Gendering Historiography. Beyond National
Canons. Ritstj. Angelika Epple og Angelika Schaser (Frankfurt: Campus Verlag
2009).
13 Um þetta sjá Smith, The Gender of History; Storia della Storiografia 46; Bente
Rosenbeck, Har videnskaben køn? Kvinder i forskning (Kaupmannahöfn: Museum
Tusculanums Forlag 2014).
14 Erla Hulda Halldórsdóttir, „Táknmynd eða einstaklingur? Kynjað sjónarhorn
sögunnar og ævi Sigríðar Pálsdóttur“, Skírnir 187 (vor 2013), bls. 80–115.
15 Ingi Sigurðsson, Íslenzk sagnfræði frá miðri 19. öld til miðrar 20. aldar (Reykjavík:
Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1986), bls. 44–52.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 57