Saga - 2019, Síða 68
þær næsta fáar, ef nokkrar, þar til kemur fram undir lok nítjándu
aldar með kvennahreyfingu og kvennaskólum og síðar stjórnmála -
þátttöku kvenna. Þetta endurspeglar þjóðernislega söguskoðun um
að þjóðveldisöld hafi verið gullöld Íslendinga, þar sem gefið er til
kynna að konur hafi notið meiri réttinda en síðar varð. Þorgerður
bendir einmitt á að margar þeirra kennslubóka sem hún skoðar,
einkum þær sem komu út framan af tuttugustu öld, voru skrifaðar
undir áhrifum af sjálfstæðisbaráttunni sem var í algleymingi.46
Ritun á heildstæðri sögu þjóðarinnar má skoða sem lið í því að festa
í sessi hugmyndir um eina þjóð með sameiginlega sögu og því er
áhugavert að glugga í þau verk sem gefin voru út um sögu Íslands
um miðbik aldarinnar, um það leyti sem sjálfstæði var náð 1944.
Saga Íslendinga var gefin út á vegum menntamálaráðs og Þjóð -
vina félagsins 1942–1958 og átti upphaflega að vera tíu bindi sem
spönnuðu sögu Íslands frá upphafi til 1918. Aðeins komu út sjö
bindi og fjölluðu þau um tímabilið 1500–1903. Ekki voru allir höf-
undarnir sagnfræðimenntaðir en allir voru þeir karlar og störfuðu
við Háskóla Íslands, nema Jónas Jónsson frá Hriflu sem skrifaði átt-
unda bindið um Fjölnismenn og Jón Sigurðsson.47 Ekki þarf að
blaða lengi í bókunum til að sjá að konur eru ekki aðeins fjarverandi
sem höfundar heldur einnig að verulegu leyti sem viðfangsefni, ekki
síst framan af því tímabili sem um ræðir.48 Eiginkvenna þekktra
karlmanna, svo sem Guðríðar Símonardóttur sem gift var Hallgrími
Péturssyni sálmaskáldi, er stundum getið en Guðríður á sér jafn-
framt sína sjálfstæðu sögu því hún var í hópi þeirra sem tekin voru
í Tyrkjaráninu 1627, flutt til Alsír og keypt aftur heim.49
Þegar komið er nær í tíma og ætla mætti að auðveldara væri
fyrir höfunda að nefna konur í öðru samhengi en sem eiginkonur,
erla hulda halldórsdóttir66
46 Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „Hvað er svona merkilegt við það að vera karl -
maður? Athugun á hlut kvenna í kennslubókum í sögu fyrir grunn- og fram-
haldsskóla“, Saga 34 (1996), bls. 273–305. Tilv. af bls. 282. Sjá jafnframt bók
Sigríðar Matthíasdóttur þar sem hún fjallar m.a. um þjóðernishyggju mennta-
karla á borð við Jón J. Aðils: Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur.
Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900–1930 (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2004).
47 Bindin sem út komu eru tölusett IV–IX og er níunda bindið í tveimur hlutum.
48 Í áðurnefndu námskeiði, Sögulegir gerendur og aukapersónur, gerðu nemend-
ur lauslega könnun á hlut kvenna í Sögu Íslendinga og kynntu niðurstöður sínar
með greinargerðum og í tíma.
49 Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga V. Seytjánda öld. Höfuðþættir (Reykjavík:
Menntamálaráð og Þjóðvinafélag 1942), bls. 101, 346, 349.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 66