Saga - 2019, Page 85
Og konur vildu fræðast um menningarsögu kvenna. Í desember
1944 gekkst Kvenfélag Alþýðuflokksins í Reykjavík fyrir fræðslu-
kvöldum „um bókmenntastörf kvenna“. Þar fluttu þrír karlar fyrir-
lestra um ritstörf kvenna en einnig var sett upp sýning á bókum eftir
íslenskar konur og bókum sem konur höfðu þýtt. Sýningin var opin
almenningi og vakti talsverða athygli. Bækurnar voru flestar fengn -
ar að láni hjá Landsbókasafni og var sú elsta sem sýnd var mat-
reiðslukver Mörtu Maríu Stephensen frá 1800. Einnig var sýnd
Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur, fyrsta ljóðabókin sem gefin var út
eftir konu á Íslandi, árið 1876. Alls voru sýndar um 300 bækur eftir
130 höfunda og þýðendur.110
Ekki má gleyma einstaklingsframtaki Önnu Sigurðardóttur sem
þegar um 1950 var farin að safna heimildum um sögu kvenna að
fornu og nýju og þannig leggja grunn að Kvennasögusafni Íslands
sem stofnað var 1975. Hún skrifaði auk þess fjölda greina um sögu-
legt efni í kvennatímarit og flutti erindi í útvarp og hafði þannig
umtalsverð áhrif á hina kvennasögulegu vakningu, einkum þó um
og eftir 1970.111
Þau dæmi sem hér hafa verið rakin sýna ekki aðeins eftirspurn
eftir verkum um líf kvenna heldur vaxandi óþol kvenna gagnvart
þeirri sögu sem birtist í sagnfræðiritum og sögubókum því þar voru
konur að verulegu leyti fjarverandi. Þau sýna óþol vegna samfélags-
legrar stöðu kvenna og þeirra hindrana sem konur mættu á vinnu-
markaði og í stjórnmálum, svo ekki sé talað um launamisréttið sem
er til umræðu í kvennablöðunum ár eftir ár, áratug eftir áratug.
Umræða um (ó)sýnileika kvenna í sagnaritun þjóðar var því orðin
hluti af jafnréttisbaráttunni, kvennapólitískt baráttumál.
sögulegir gerendur og aukapersónur 83
110 „Merkileg sýning á bókum íslenzkra kvenna“, Alþýðublaðið 5. desember 1944,
bls. 2 og 7; Nýtt kvennablað, 5:8 (1944), bls. 15–16; Vikan 7:44 (1944), bls. 7.
111 Sigríður Th. Erlendsdóttir, „Anna Sigurðardóttir“, Andvari 125 (2000), bls. 11–
68. Anna er það sem kalla má áhugasagnfræðing en hún varð jafnframt fyrst
kvenna til þess að hljóta heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands. Það var
árið 1986 fyrir rannsóknir sínar og söfnun heimilda um sögu kvenna. Anna
var líka virk í kvennahreyfingunni, einkum starfi Kvenréttindafélags Íslands
frá því fyrir miðja öldina, sem sýnir enn og aftur hina kvennapólitísku teng-
ingu.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 83