Saga - 2019, Page 93
eins og í nágrannalöndunum.16 Áður hafi ríkisvald verið veikt og
áhrif verndarkerfa mikil í íslensku samfélagi líkt og annars staðar í
Evrópu. Á fjórtándu og fimmtándu öld voru verndarkerfin grunn -
stoðir samfélagsins og menn hafi ef til vill frekar leitað til biskupa
eða lénsherra en embættismanna konungs um vernd og réttlæti.
Tala má um verndarkerfin sem ígildi staðbundins ríkisvalds og
hvert þessara kerfa var í meginatriðum fullvalda.17 Þetta var kjarn-
inn í hinu klassíska lénsskipulagi. Það samanstóð af fjölda sjálf -
stæðra jarðagóssa sem voru sjálfbær varðandi efnahag, stjórnkerfi
og félagstengsl.18 Menn, svo sem leiguliðar, voru menn góssins, þ.e.
undir vernd herramannsins. Konungsvald eða ríkisvald eins og það
birtist eftir 1550 í formi stórra miðstýrðra ríkja var á hinn bóginn
bæði veikt og óstöðugt á fjórtándu til sextándu öld.
Lagaumhverfi mannvíga á Íslandi á síðmiðöldum
Í Grágás, lagabók sem gilti á Íslandi fram til um 1270, eru umfangs-
mikil ákvæði um viðbrögð við manndrápum.19 Þau ákvæði er að
finna í þeim kafla lögbókarinnar sem nefnist Vígslóði, en einnig er
svokallað Baugatal hluti af ákvæðum um manndráp. Í Grágás er
gerður skýr greinarmunur á morði og mannvígi. Sá sem gerist sekur
um morð skal útlægur úr mannlegu samfélagi, dæmdur til skóg-
gangs.20 Hann var réttdræpur og réttlaus en þó mun samkvæmt
Grágás hafa verið unnt að sættast bæði við morðingja og skógar-
mann. Það breyttist með Jónsbók, þegar hugtakið „óbótamál“ kemur
manndráp verður að morði 91
16 Axel Kristinsson, Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið
í sögu Íslands. (Reykjavík: Sögufélag 2018), bls. 93–96.
17 yfirlit yfir helstu verndarkerfi síðmiðalda á Íslandi er að finna í Árni Daníel
Júlíusson, Landbúnaðarsaga Íslands I. Þúsund ára bændasamfélag (Reykjavík:
Skrudda 2013), bls. 197–211.
18 Um upphaf þessa kerfis í vesturhluta Evrópu sjá m.a. Marc Bloch, Feudal
Society I–II, Charles Duby, The Early Growth of the European Economy: Warriors
and Peasants from the Seventh to the Twelfth Century (Ithaca: Cornell University
Press 1974), Pierre Bonnassie, From Slavery to Feudalism in South-Western Europe
(Cambridge: Cambridge University Press 2010) og Charles West, Reframing the
Feudal Revolution: Political and Social Transformation Between Marne and Moselle,
c. 800–1100 (Cambridge: Cambridge University Press 2013).
19 Grágás, bls. 209–285, 447–459.
20 Grágás, bls. 209, 211, 215.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 91