Saga - 2019, Page 95
morð, stundum fleiri en einn fyrir sama glæpinn. Fyrsta dæmið er
frá 1331 og það síðasta frá árinu 1400. Voru dæmdir morðingjar
annaðhvort kviksettir eða hálshöggnir.26 Á hinn bóginn eru dæmin
um mannvíg frá fjórtándu öld mun fleiri, eða alls rúmlega 50 úr
annálum.27 Nær engin skjöl finnast um þessi mál í Fornbréfa safn inu,
en fyrstu dómar um vígsakir sem þar er að finna eru frá 1422 og
1428.28 Um meðferð málanna 50 fyrir dómstólum er fátt sagt í annál-
um, hvorki um viðurlög né hvort bætur komu fyrir þann vegna, en
í eitt skipti er þess getið að vígi hafi verið lýst.
Á tímabilinu 1450–1540 er vitað um nokkra tugi vígsmála og eru
heimildir af öðru tagi en heimildir um vígsakir fjórtándu aldar.
Engar annálaheimildir eru um þessi mál en skjöl um þau er að finna
í Íslensku fornbréfasafni. Eftir árið 1540 snarfækkaði vígsmálum án
þess að meðferð þeirra breytist. Síðari bindi Fornbréfasafnsins birta
mikið skjalamagn einmitt frá þessum áratugum, reyndar öll skjöl
sem hafa varðveist fram að 1570. Ólíklegt er að mörg víg hafi orðið
á þessum tíma án þess að um þau hafi varðveist skjöl. Eftir 1570
verða Alþingisbækur Íslands ásamt annálum aðalheimild um vígsmál.
Samkvæmt þessum heimildum fjölgaði vígsmálum nokkuð aftur
um skamma hríð um 1580‒1590 og fækkaði síðan hratt. Eftir 1600
gerbreyttist öll málsmeðferð og afstaða til manndrápa og morða.
Manndráp eða víg hurfu að mestu úr sögunni og eftir það voru flest
eða öll manndrápsmál líka morðmál.
Fækkun mannvíga á Íslandi
Á tímabilinu 1450‒1650, því tímabili sem hér er til athugunar, varð
gjörbreyting á þessu sviði. Af töflu 1 má sjá fjölda manndrápa og
morða sem getið er um í tiltækum heimildum á þessu tímabili. Um
er að ræða mannvíg eða morð þar sem maður drepur mann og úr
verður dómsmál, eða þess er getið í dómsmáli. Þetta táknar að
nokk ur tilfelli þar sem vitað er að menn voru drepnir án dóms og
laga, eins og aftaka Jóns Arasonar, eru ekki tekin með. Slík tilfelli eru
allnokkur og tengjast oft meiri háttar þjóðfélagsátökum, hernaði eða
stórárásum. Meðal slíkra tilfella á tímabilinu eru Tyrkjarán 1627,
Spánverjavíg 1615 og átök vegna siðaskiptanna 1539‒1551.
manndráp verður að morði 93
26 Þórður Björnsson, „Um vígsakir á Íslandi á 14. öld“, bls. 340.
27 Sama heimild, bls. 345.
28 DI IV, bls. 297, 359.
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:21 Page 93