Saga - 2019, Page 191
þannig í senn birtingarmynd almannavalds og birtingarmynd hugmynda
Íslendinga um hvernig því verður beitt í þágu íslenskra borgara“ (bls. 342).
Einstaka yrðingar í bókinni eru umdeilanlegar, til dæmis sú að upphaf
sjálfstæðisbaráttunnar sé oft miðað við útgáfuna á grein Jóns forseta, „Hug -
vekja til Íslendinga“ frá 1848 (bls. 63). Þá má einnig deila um hvort Ísland
hafi kastað hlutleysisstefnunni eftir síðari heimsstyrjöld (bls. 13) eða á
meðan stríðinu stóð og einnig um það hvort landið hafi verið hernumið af
Bandaríkjamönnum árið 1941 (bls. 15, 113) eða verið gerður samningur við
þá. Síðan er því allnokkuð haldið á lofti í bókinni að forkólfar sjálfstæðisbar-
áttunnar hafi ætíð litið á aukið sjálfstæði (jafnvel fullveldi sem á auðvitað
ekki við um nítjándu öldina) sem forsendu fyrir aukinni velsæld og menn-
ingarlegri uppbyggingu (bls. 79, 121). Auðvitað töluðu helstu talskarlar full-
veldisins með þessum hætti í upphafi tuttugustu aldar og jafnvel einnig fyrr.
En helstu sjálfstæðishetjur Íslands á nítjándu öldinni einblíndu ekki á þjóð -
frelsið eins og kunnugir vita. Menn eins og Baldvin Einarsson, Fjölnis menn
og Jón Sigurðsson töluðu allir fyrir margþættri nývæðingu landsins. Í fyrsta
hefti Fjölnis (1835) var til dæmis talað með velþóknun um iðnvæðingu.
Eins og komið hefur fram þá beinir Guðmundur Jónsson sjónum sínum
að fullveldinu í reynd, hvernig Íslendingar fóru að beita fullveldisréttinum
samfara aukinni velmegun og styrkari yfirráðum yfir eigin auðlindum og
nýtingu þeirra. yfirferð Guðmundar lýkur árið 1940, einmitt á þeim tíma-
mótum sem nútímavæðing íslensks samfélags tók mikinn og margslunginn
vaxtarkipp. Þannig vekur nokkra athygli að ein allra mikilvægasta útflutn-
ingsafurð Íslendinga á tuttugustu öld, saltfiskurinn, kemur lítt við sögu í
þessu riti en fram til um 1970, þegar álframleiðsla hófst hérlendis, hélt út -
flutn ingur sjávarafurða uppi fullveldi og sjálfstæði landsins. Vissulega hefði
verið fróðlegt að fá stofnana- og hagsögulega umfjöllun um fullveldið á
þessum nótum frá stríðsárunum til samtímans. Fleiri dæmi mætti nefna um
atriði sem áhugavert hefði verið að fá umfjöllun um. Í inngangi segir: „Full -
veldisdagurinn 1. desember skipaði lengi háan sess í þjóðlífi Íslend inga“
(bls. 15). Hér er fátt um rannsóknir til að styðjast við en einhver á örugglega
eftir að kanna hversu „háan sess“ dagurinn hafi skipað í hugum fólks og
það væri efni í heilan kafla. Áfram væri hægt að biðja um fleiri kafla en þá
hefði bókin sprengt öll lengdarmörk og í raun orðið fjölbindaverk.
Bókum af þessu tagi hættir líklega til að verða heldur samtímabundnar
hvað efnistök snertir en hér hefur ritstjóra og ritnefnd greinilega tekist að
gæta ákveðins jafnvægis milli tímabila. Það sem einkennir þetta greinasafn
er einmitt hversu langur tímaásinn er því hann spannar tímabilið frá Bodin
til Brexit. Almennt er lítið um ónauðsynlegar endurtekningar þannig að
greinilegt er að mikil vinna hefur verið lögð í að ritstýra verkinu. Það birtist
einnig í vönduðu málfari þótt reyndar sé merkjanlegur munur milli texta
einstakra höfunda.
Páll Björnsson
ritdómar 189
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:22 Page 189