Saga - 2019, Page 206
„Brúðguminn Stephensen á eftir að bola fógeta háöldruðum úr embætti,“
segir Þórunn (bls. 12) og gefur þannig tóninn um það sem á eftir kemur.
Annars er viðfangsefni ritsins ekki skilgreint frekar en að hér sé um að ræða
sögu Skúla fógeta og eins og fram kemur í titli að þetta sé saga frá átjándu
öld.
Í bókinni er ævi Skúla rakin í tímaröð eins og telja má að sé eðlilegast að
gera við ritun ævisögu. Byrjað er á æskuárunum í Kelduhverfi og Aðaldal,
því fylgt eftir með stuttri námsdvöl í Kaupmannahöfn, fjallað allítarlega um
sýslumannsárin, landfógetaembættið og Innréttingarnar í Reykjavík. Að
síðustu kemur sérstakur kafli um börnin og síðustu ár Skúla. Það minnir
óneitanlega að sumu leyti á framsetningu Jóns J. Aðils í ævisögu Skúla frá
1911 (Skúli Magnússon landfógeti, Rvk 1911). Fínar myndir og vel frágengin
myndaörk prýða bókina.
Þetta er þriðja ævisaga Skúla sem kemur út síðan 1911 auk hans eigin
sjálfsævisögu (Merkir Íslendingar II, Rvk 1947, bls. 37–64) og fjölmargs annars
sögulegs efnis sem skrifað hefur verið um hann síðustu öldina. Áhugavert
hefði verið ef höfundur hefði gefið sér rúm í inngangi til að ræða þessar ævi-
sögur og sögulega efni, hvort eða hverju hún hygðist bæta við það eða frá
hvaða sjónarhóli hún nálgaðist efnið. Það hefði gefið ritinu meira vægi sem
fræðiriti.
Heimildatilvísunum og heimildaskrá er alfarið sleppt í bókinni en vísað
til heimildaskrár, heimildasafns og heimildalykils undir nafni höfundar og
heiti bókar á vefslóð Þjóðarbókhlöðu: www.rafhladan.is. Þar er að vísu að
finna ófullkomna heimildaskrá en heimildasafn og hinn svokallaði heim-
ildalykill er með öllu óskiljanlegur. Riti þessu er þannig augljóslega fremur
ætlað að höfða til almennra lesenda en til fræðimanna og getur varla talist
vera strangfræðilegt sagnfræðirit. Það lýtur þó engan veginn lögmálum
hinnar sögulegu skáldsögu og ekki hægt að dæma það sem slíkt. Segja má
að höfundur reyni einhvern veginn að fara bil beggja með líflegri frásögn en
minni fræðilegri umfjöllun.
Frásögnin rennur vel, stíllinn er lipur, bókin lífleg og skemmtileg aflestr-
ar. Orðalag er víða mjög frjálslegt, til dæmis er stiftamtmaður nefndur
„stifti“ á einum stað (bls. 243). Stundum getur orðalagið líka verið dálítið
stuðandi, til dæmis „þeir sem aldrei fóru suður“ (bls. 187) og rauðar buxur
„eins og Megas gekk í“ (bls. 188). Bókin er eigi að síður ágætt yfirlit yfir ævi
og störf Skúla. Það er langt um liðið síðan ævisaga hans kom út síðast, rúm
hálf öld, og því vel tímabært að fá nýtt yfirlit.
Bókin er skrifuð af mikilli ástríðu og innlifun. Sviðsetningar eru margar
og höfundur lifir sig inn í atburði. Þegar fjölskyldan flytur að norðan og
ríður í hlað á Bessastöðum sér Þórunn þau til dæmis fyrir sér svona: „Þau
eru í sauðsvörtum yfirhöfnum. Steinunn og dætur hennar með gylltar silf-
urspennur á hempum í skaut niður. Þéttofið klæði flæðir yfir söðul, lendar
og síður gæðinganna“ (bls. 168). Orðalag er oft mjög tilfinningaríkt og gild-
ritdómar204
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:22 Page 204