Saga - 2019, Page 208
baj, calemanque, kersey, sayette, sars, triffel, pycklagen og pack“ (bls. 188). Hér
gerir höfundur ekki minnstu tilraun til að útskýra fyrir lesendum um hvers
konar dúka- og klæðagerð sé að ræða heldur bendir þeim á að gúgla það.
Vissulega óvenjuleg aðferð. Hæglega hefði mátt gera lesendum betur grein
fyrir því að hér sé talað um misgrófa eða fínt ofna ullardúka og ullarefni,
ýmist einlita, röndótta eða með mynstri.
Í síðasta hluta bókarinnar er ekki lengur um samfellda frásögn í tímaröð
að ræða heldur fjallar kaflinn fremur þematískt um tíma Skúla þar sem
maðurinn Skúli er skoðaður úr meiri fjarlægð eins og höfundur segir sjálf
(bls. 195). Það er farið hratt yfir sögu síðustu æviárin og svolítið eins og
botninn detti úr sögunni, eins og höfundur hafi verið í tímahraki! Hún
endar söguna á afskiptum Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns af embætti
landfógeta eins og gefin voru fyrirheit um í upphafi bókar. Segir frá sjóð -
þurrð og kyrrsetningu eigna Skúla, hvernig hann var eiginlega neyddur til
að láta af embætti á efri árum þegar heilsu var farið að hraka. Þórunn segir
þó ekki frá uppboðinu í Viðey sumarið 1794 þegar stór hluti af eigum Skúla
voru boðnar upp vegna hinnar meintu sjóðþurrðar né frá uppskrift á dánar-
búi hans árið eftir. Þær heimildir virðast hafa farið fram hjá henni. Undir -
rituð þykist viss um að hún hefði haft gagn og gaman af því að kynna sér
þær. Slíkar uppskriftir á eigum manna varpa oft áhugaverðu ljósi á þá sjálfa.
Í lokin dregur Þórunn fram nokkra punkta um Skúla sem hún telur að
fyrri sagnfræðingar hafi viljað láta liggja milli hluta, svo sem að hann hafi
verið að drepast úr gigt, sem hingað til hefur þótt of „óhetjulegt“ til að segja
berum orðum, og að hann hafi verið „of hrokafullur og stór í sér til að víkja
áttræður“ (bls. 246).
Á einum stað virðist höfundur misskilja hugtak sem hún notar: „Vel -
byrð ugur lögmaðurinn innkallar fjarstöddum þingvíti fyrir að hafa for -
sómað að sækja þingið í tíma,“ segir hún og bætir við að lögréttumennirnir
„sem skrópuðu fengu sem sagt vítur yfirmanns síns“ (bls. 88). Þingvítið sem
hér um ræðir er að sjálfsögðu engar ávítur yfirmanns heldur fjársekt fyrir
að mæta ekki á réttum tíma til Alþingis og hefði farið betur á að skýra það
út fyrir lesendum. Á nokkrum stöðum rekst fróður lesandi á smávægilegar
staðreyndavillur í ártölum eða öðru sem ekki skal tíundað nánar hér en vel
hefði mátt komast hjá með betri ritstjórn.
Miður er að heimildatilvísunum hafi verið sleppt í bókinni. Það mætti
spyrja hvort rit af þessu tagi höfði endilega betur til almennra lesenda með
því að sleppa heimildatilvísunum. Það finnst undirritaðri ólíklegt að sé
málið í dag. Gagnlegra hefði verið að hafa vel frágengna tilvísanaskrá aftan -
máls og heimildaskrá sem hefðu aukið fræðilegt gildi verksins til muna. Það
hefði varla átt að fæla nokkurn lesanda frá bókinni. Það er jú alltaf spenn -
andi og gaman að lesa um Skúla fógeta.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir
ritdómar206
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:22 Page 206