Saga - 2019, Page 219
á að sambandið hefði oft verið erfitt en nú „har emotionerne lagt sig, og i
dag er der et usynligt kulturbaand mellem Island og Danmark“ (bls. 97).
Í umfjöllun bókarinnar má vel greina, þrátt fyrir að textinn sé knappur,
að ríkar tilfinningar hafi legið að baki þeim fjölmörgu erfiðu úrlausnarmál-
um sem takast varð á við í aldanna rás, einkum á síðari hluta nítjándu aldar
og fyrri hluta tuttugustu aldar. Það var flókið að hafa Ísland innan danskrar
ríkisheildar. Verkið vekur íslenskan lesanda til umhugsunar um gildi hins
langa og innihaldsríka sambands landanna tveggja. Bókin er því í ýmsu
tilliti ljúfsár lesning. Þrátt fyrir að skilnaður landanna sé yfirstaðinn fyrir
mörgum áratugum sér hin sameiginlega saga aldanna til þess að þráðurinn
milli Danmerkur og Íslands verður alltaf sterkur.
Margrét Gunnarsdóttir
Kristín Svava Tómasdóttir, STUND KLÁMSINS. KLÁM Á ÍSLANDI Á TÍM-
UM KyNLÍFSByLTINGARINNAR. Sögufélag. Reykjavík 2018. 341 bls.
Myndir, viðauki, útdráttur á ensku, myndaskrá, heimildaskrá, nafna- og
atriðisorðaskrá.
Í þeirri bók sem hér er til umfjöllunar, Stund klámsins, ræðst Kristín Svava til
atlögu við að rita sögu hins forboðna og fordæmda, lágmenningar sem
fæstir vilja kannast við að hafa lesið eða horft á — sögu kláms á Íslandi þar
sem sjónum er einkum beint að sjöunda og áttunda áratugnum eða tímum
kynlífsbyltingarinnar svokölluðu. Með þessu vali sínu á viðfangsefni tekur
Kristín Svava nokkra áhættu því eins og hún bendir á er hefð fyrir því að
„þetta grófa og óvandaða, fúla og óþverralega viðfangsefni þætti hafa til-
hneigingu til þess að subba út fræðimennina sjálfa“ (bls. 19). Bókin byggir
á MA-ritgerð höfundar frá 2014 en að henni frátalinni hefur lítið verið fjallað
um klám í sagnfræði eða fræðilegu samhengi á Íslandi.
Eitt af því sem strax vekur athygli er hugtakaforðinn sem Kristín Svava
kynnir til sögunnar og notar á kerfisbundinn hátt í umfjöllun sinni. Þannig
er henni tíðrætt um sviðsetningu kynlífs í mynd, texta eða hljóði en það er
þýðing á því sem á ensku kallast representation og í stað þess að tala um að
efni sem felur í sér nákvæmar kynlífslýsingar sé opinskátt, gróft eða djarft
eins og hefð er fyrir notar hún hugtökin bersögli þegar fjallað er um ritmál
og bersýni þegar fjallað er myndmál (bls. 20). Fyrst í stað fannst mér þessi
orðanotkun svolítið uppskrúfuð og framandleg en hún vandist ágætlega. Þá
vinnur Kristín Svava talsvert með ensku hugtökin ob/scene og on/scene sem
hún útskýrir en gerir enga tilraun til að þýða.
Fyrir mér er tvennt sem stendur upp úr eftir lesturinn. Annars vegar
hversu lítið ég vissi í raun um sögu kláms á Íslandi og hins vegar hversu
ritdómar 217
Saga vor 2019 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 13.5.2019 17:22 Page 217