Andvari - 01.01.2013, Síða 161
ANDVARI
UTAN OG INNAN GARÐS
159
í næstu tveimur skáldsögum Bjarna, Borginni bak við orðin og Nœturverði
kyrrðarinnar, heldur hann áfram að vinna með kristinn táknheim og guð-
fræðileg stef á athyglisverðan hátt. Fyrir fyrrnefndu skáldsöguna hlaut Bjarni
Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar, kennd við Tómas Guðmundsson, árið
1998, en sú síðari er sjálfstætt framhald þeirrar fyrri. í þessum skáldsögum
vinnur Bjarni með efnivið sem á rætur að rekja til ævintýra, trúarbragða, tákn-
heims goðsagna, heimspeki, dulspeki og drauma. Textinn er hlaðinn mynd-
rænum lýsingum og skapandi beitingu málsins og höfundur víkst ekki undan
að spyrja stórra spurninga um tilvistina, tilgang og merkingu, ástina og dauð-
ann og önnur klassísk viðfangsefni skáldskaparins. Gott jafnvægi er á milli
fantasíunnar og veruleikans í texta Bjarna, hin tvö svið spegla gjarnan hvort
annað á djúpsæjan máta. Það er síður en svo auðvelt að gera grein fyrir efni
þessa tveggja bóka því söguheimurinn er margbrotinn og lagskiptur. í sögu-
miðju er persónan Immanúel Merkúríus sem er lítill drengur í upphafi fyrri
sögunnar en ungur maður í þeirri síðari. Immanúel Merkúríus kemur til óskil-
greindrar borgar, munaðarlaus götudrengur, og frá honum streyma frásagnir
af óþekktu konungsríki sem hann segir vera ríki föður síns. Sögur drengsins
hrífa áheyrendur - hvort sem þeir trúa honum eða ekki - enda spanna þær
allar mannlegar tilfinningar og annað sem góðar sögur prýða; hann segir frá
ástum og svikum og flókinni valdabaráttu í ævintýralegri veröld. Frásagnir
drengsins taka stundum á sig form dæmisagna og spakmæla þar sem merk-
ingin er margræð og vekur fólk til umhugsunar með táknrænum skírskotun-
um og vísdómsorðum. Saman við sögur drengsins fléttast frásögn af lífi hans
í borginni, samskiptum hans við fólk af ýmsu tagi og tilraunum hans til að
fóta sig í þeim nútímaveruleika sem virðist víðs fjarri þeim heimi sem hann
lýsir sem sínu upprunanlega umhverfi. Fantasíuskrif eru ekki á allra færi en
Bjarni Bjarnason hefur afar góð tök á þeim eins og þessar bækur hans sanna.
í ágætri grein eftir Bjarka Valtýsson, sem finna má á vef Borgarbókasafnsins,
segir Bjarki að Bjarni noti fantasíuna „sem tæki til könnunar á dulvitund" og
sé „þá kominn nærri draumabókmenntum“ og vísar hann til orða Bjarna - í
viðtali sem birtist í tímaritinu Andblœr - að draumar séu „raunsæjar lýsingar
á hinni algeru fantasíu“.8
Bjarni hélt áfram að vefa fantasíu inn í skáldverk sín og árið 2001 gaf
hann út skáldsöguna Mannætukonan og maðurinn hennar þar sem hann leik-
ur sér jafnframt með form glæpasögunnar á skemmtilegan hátt, en verkið
segir hann byggt á draumi. Upphaf sögunnar gefur fyrirheit um hefðbundna
glæpasögu, þar sem leynilögreglumaðurinn Hugi Hugason er á ferð með dul-
arfullri kvenpersónu sem ber nafnið Helena Náttsól. Fljótlega bregður frá-
sögnin þó á leik með fantasíu og ýmsum snúningum sem vel má halda fram
að geri kostulegt grín að reyfaraforminu. Fyrir Mannætukonuna fékk Bjarni
Bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness árið 2001.