Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1964, Page 1
SELMA JÓNSDÓTTIR
GJAFARAMYND í ÍSLENZKU HANDRITI
Hvað er gjafaramynd? Orðið gjafari er hér notað sem íslenzk
þýðing orðsins donator (lat. donare — gefa), en það merkir mann,
sem hefur gert eða látið gera og síðan gefið, kirkju, handrit eða
annan kjörgrip, guði föður, Kristi eða einhverjum öðrum heilögum
til dýrðar. Gjafaramyndin sýnir afhendingu verksins og er um leið
eins konar minnisvarði gjafarans.
I Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder skilgreinir Rune
Norberg orðið gjafaramynd á nokkuð annan veg: „Annaðhvort er
gjafarinn sýndur standandi með mynd af því, sem gefið er, venju-
legast kirkju, í hendinni eða hann krýpur á kné í bænastellingu
frammi fyrir einhverri heilagri veru, oftast Kristi, og er þá venju-
legast sýndur í smærra formi."1 Sem dæmi um fyrri gerðina
nefnir Rune Norberg mósaíkmyndirnar af Justiníanusi keisara og
Theódóru drottningu frá 6. öld í kirkjunni S. Vitale í Ravenna. Þar
halda þó gjafararnir sjálfir ekki á líkani kirkjunnar, sem verið er
að gefa, en hins vegar sýnir önnur mynd í kirkjunni, nær Kristi,
heilagan Ecclesíus rétta líkan af kirkjunni í áttina til Krists. Sem
dæmi um síðari gerðina nefnir Rune Norberg gullfyrirbrík (ante-
mensale) frá Basel, nú í Cluny-safninu í París, gerða 1019, þar
sem Hinrik keisari II og drottning hans krjúpa við fætur Krists.
Myndirnar, sem um getur í seinni skilgreiningarlið Rune Norbergs,
sýna þó ekki, hvað gjafararnir eru að gefa, og eru að því leyti
annars eðlis.
í miðaldalist Evrópu eru gjafaramyndir mjög algengar. Þannig
er meðal annars í kirkjunni S. Angelo in Formis freskumálverk
frá síðasta fjórðungi 11. aldar, sem sýnir Desideríus, ábóta í Monte
Cassino, rétta líkan af kirkjunni í átt til Krists, sem situr í hásæti.
Slíkar gjafaramyndir munu vera eðlilegastar, að líkan af þeim hlut,
sem gefinn er, sé sýnt eða rétt fram til guðlegrar veru. Þá fer ekki
milli mála, hvað verið er að gefa og hver gefandinn er.