Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Page 6
10
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
inum og gerð hans. Efst var lábarið stórgrýti, ekki raðað skipulega
heldur líkast því, sem því hefði verið kastað niður af handahófi.
Sennilega hafa hellur verið lagðar efst á kumldysina, en er kumlið
var rofið, hefur þeim verið rutt frá, því að utan við hrúguna voru
allstórar hellur, sem greinilega hafa verið henni tilheyrandi.
Þegar grjótið hafði verið tekið frá komu efstu beinin í ljós uppi
á milli neðstu steinanna. Sama óskipulega beinakösin var einnig í
þessum hluta kumlsins, og var ógerningur að átta sig á upphaflegri
legu beinanna né heldur, í hvora átt höfuðin hefðu upphaflega snúið.
Jón Steffensen prófessor, sem fékk beinin til rannsóknar, raðaði þeim
saman eftir því sem föng voru á, og kom þá í ljós, að þau voru alls
úr sjö manns, þremur konum og fjórum karlmönnum. Hafði allt
þetta fólk látizt á unga aldri, en um þetta atriði skal annars vísað
til greinar próf. Jóns Steffensens um beinin í þessu hefti af Árbók.
Auk mannabeinanna komu í ljós hundsbein, og voru þau aðallega
skammt austan við miðjan bátinn, niðri undir botni. Neðri kjálk-
arnir lágu við syðri byrðinginn, rifbein og leggir kringum botninn
og innan um mannabeinin.
Af bátnum var að kalla ekkert eftir nema rónaglarnir, en af þeim
var hinn mesti fjöldi. Við suma þeirra loddu ryðmengaðar tréflísar,
og á stöku stað sáust merki eftir byrðing, viðarlitur í sandinum og
viðarleifar, sem urðu þó hismi eitt, er þær þornuðu. Af eystri hlut-
anum sáust aðeins naglar úr botni og neðra hluta byrðings, því að
þar hafði jarðýtan tekið með sér efri hlutann. Vestri hlutann hafði
jarðýtan hins vegar ekki skert, og þar voru naglarnir lítt færðir úr
stað, einkum neðan til, en rás hafði verið grafin ofan í melinn, sem
er undir hólnum, til að skorða bátinn í, og lag hans því haldizt betur
þar. Hins vegar hefur grjóthrúgan sigið nokkuð og pressað út efstu
borðin, og við það hafa naglaraðirnar aflagazt lítillega.
Sennilega hefur stafn bátsins snúið í vestur og skutur í austur,
samanber það, sem síðar segir, og verður við það miðað í frásögn-
inni.
I kumlinu var margt af smáhlutum, en sumir þeirra höfðu þó bor-
izt úr kumlinu af völdum jarðýtunnar. Sumt hlutanna fannst ekki
fyrr en við seinni rannsóknina, svo sem síðar verður frá skýrt. Hið
fyrsta, sem í ljós kom af smáhlutum, voru perlur úr steinasörvi,
sem voru bæði í ýtufarinu og í sandinum innan um beinin. Meðal
þeirra voru tvær rafperlur, og var önnur nokkru aftan við miðju
bátsins, en hin framan við miðju. í afturhluta bátsins var lítill
Þórshamar úr silfri, og því sem næst í miðjum bátnum lágu tveir