Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Side 69
BJÖLLURNAR FRÁ KORNSÁ OG BRÚ
69
að íslenzku bjöllurnar séu frá 7.—8. öld, þar sem þær eru báðar
fundnar í kumlum með ótvíræðum 10. aldar gripum.
Nýlega hefur birzt grein eftir J. D. Bu’Lock, sem varpar vel þegnu
ljósi á þetta mál (J. D. Bu’Lock, The Celtic, Saxon and Scandinavian
Settlement at Meols in Wirral. Transactions of the Historic Society
of Lancashire and Cheshire. Vol. 112, 1960). Fremst á nesi því, er
verður milli ósa ánna Mersey og Dee á Norðvestur-Englandi, vi'ð
Liverpool-flóa inn úr írlandshafi, þar sem nú heitir Hoylake, hefur
fyrr á öldum verið ágæt höfn og jafnvel sæmileg allar götur fram
á 18. öld. Síðan á nýsteinöld hefur því staður þessi verið mjög mikil-
vægur sem miðstöð fyrir verzlun og siglingar, til dæmis til frlands
og Manar, og samgöngur í ýmsar áttir, meðal annars upp eftir fljót-
unum tveimur, Mersey og Dee. Á víkingaöld settust norðurlanda-
menn að þarna og hafa látið mikið til sín taka. Sést það meðal ann-
ars af örnefnum, og Þingvellir (Thingwall) er þarna skammt frá.
Talið er, að staður þessi hafi áður fyrri heitið Meols (frb. Mels),
og á það að vera sama og norræna orðið melur, en sú nafngift helg-
ast af allmiklu blásturslandi með sandhólum, sem einkenna staðinn.
Nú er engin höfn lengur í Meols. Strandlínan hefur verið óstöðug
og sjór eitthvað gengið á landið. Framburður ánna hefur einnig haft
sín áhrif, og að öllu samanlögðu hafa vatn og vindar gert þarna svo
miklar breytingar, að þar sem öldum e'ða árþúsundum saman var hið
ákj ósanlegasta skipalægi, er nú hafnleysa ein. Jafnframt hafa þessir
náttúrukraftar á síðustu áratugum og allt síðan á 19. öld afhjúpað
ýmsa forngripi frá fyrri blómaskeiðum staðarins, allt aftan frá ný-
steinöld og síðan frá hverju menningarskeiðinu á fætur öðru. I grein
sinni skýrir Bu’Lock frá þessum minjum, þó aðeins frá keltneska,
saxneska og skandinavíska tímanum, eða frá lokum Rómverjatíma-
bilsins til innrásar Normanna á 11. öld.
Meðal forngripanna frá Meols er lítil bronsbjalla, sem virðist svo
nauðalík Kornsárbjöllunni, að naumast er hægt að þekkja hvora frá
annarri. Engum getur blandazt hugur um, að hér er kominn ná-
komnasti ættingi íslenzku bjallnanna, og með þessum fundi er sá
draumur búinn, að þær séu íslenzkar að uppruna, og eru þær ekki
ómerkari fyrir það. Bu’Lock hefur í rauninni ekki mikið um bjölluna
að segja. Hann segir, að slíkar bjöllur séu ekki algengar, og í raun-
inni virðist hann ekki vita um aðra en Sutherland-bjölluna, sem
Lethbridge hefur skýrt frá. Telur Bu’Lock, að Lethbridge ætli henni
of háan aldur, og kemur það vel heim við að íslenzku bjöllurnar hafa
bersýnilega ekki verið lagðar í jörðu fyrr en einhvern tíma á 10. öld.