Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Qupperneq 106
106
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
í kring hélzt við, því löng hlé hafa orðið á milli uppblásturskast-
anna hér eins og annars staðar. Er þetta augljóst af því, að það sem
blásið hefir upp í tíð núlifandi manna, bæði af Bæjarholti og
Borgarholti, var eggslétt valllendi, en hefir vitaskuld allt verið
kargaþýfi, áður en uppblásturinn hófst, eins og hin önnur holt og
móar á þessu svæði. Og að lokum barst spillingin að Seli, eins og
síðar segir.
Til glöggvunar þeim, sem til þekkja, um það hve langan tíma
uppblástur getur tekið, má skjóta hér inn í ummælum um upp-
blásturinn norðaustan í Kálfholtsheiði. Þórður Guðmundsson í Hala,
sem fæddist 1844 og ólst upp í Kálfholtshjáleigu til sextán ára
aldurs, sagði að uppblásturinn í heiðinni hefði nálega enginn verið
á uppvaxtarárum sínum, aðeins smásletta niður við Lónið í götunni
frá Króki. En 1883 hefði rifnað upp mikið svæði, og hefir það smá-
aukizt síðan. Sama máli gegnir um uppblásturinn á Kambsheiði.
Þar segir þjóðsagan, að hann hafi byrjað í hóffari á miðri Skeið-
flöt, sem mun hafa verið nálægt því miðsvæðis. En að öðru leyti
sögðu mér nákunnugir menn,43 að mestur hluti skemmdarinnar
hefði orðið í þeirra minni eða frá því um miðja 19. öld, þótt hún
að vísu hafi þá verið komin aðeins af stað.
Eins og fyrr segir, er getið um sandfok á Jólgeirsstöðum, í jarða-
skrá frá Skálholti árið 1685. Segir þar, að bærinn sé „nú á sandi
standandi". Því miður gefur þessi setning enga aðra lýsingu á
ástandinu en þá, að ætla má að komnar séu sandfannir kringum
bæinn og ef til vill eitthvað fokið á túnið. En þetta er skýringin,
sem biskupunum í Skálholti hefir verið gefin.
Lýsing Bjarna lögréttumanns Gíslasonar gefur aftur glöggva
mynd af því, hvernig komið var 1709. Ummæli hans,-----------„líka
mannabein og tegund af málmi, er upp kemur úr sandinum nær
blástur gengur“-------sýna það, að austurhlið Bæjarholtsins hefir
verið farin að spillast til muna og kirkj ugarðurinn að trosna upp,
einnig smiðjan; þaðan hefur málmurinn komið. Hve miklu þetta
hefir numið, er ekki gott að segja um, en ætla má þó, að sandsteins-
hellan, sem minnzt er á í upphafi þessa máls, hafi lengi haldið
skjótri eyðileggingu í skefjum á Bæjarholtinu sjálfu. — „Þetta
plátz og þarumkring er nú sandi kafið, að lengd sem svarar til
hálfri bæjarleið“ — segir í rauninni alveg til um það, hvernig
skemmdum hefur verið farið. Og' „er nú sandi kafið“, gefur augljós-
4 3 T. d. Þorsteinn Einarsson, Köldukinn, Runólfur Halldórsson, Syðri-Rauðalæk.