Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1966, Blaðsíða 115
KRISTJÁN ELDJÁRN
TÍU SMÁGREINAR
1. Forn seyðir í Bakkárholti.
„Ég man eftir þegar verið var að grafa fyrir húsinu heima . . .“
Hve oft hef ég ekki heyrt menn hefja máls á þessa leið, og síðan lýsa
þeir einhverju eftirtektarverðu, sem fyrir augu bar, þegar grafið var
fyrir nýja steinhúsinu, niður í gegnum öll mannvistarlögin á gamla
bæjarstæðinu, sem þar hafa safnazt hvert ofan á annað, eftir því sem
tímar liðu og byggingarskeiðin urðu fleiri og fleiri. Sú saga hefur nú
sennilega þegar gerzt á meiri hluta íslenzkra bæja, að búið er að gera
rask af þessu tagi, og má nærri geta, að margt hefur komið í ljós,
sem fróðlegt hefði verið að gefa nánari gaum. Einstöku sinnum
hafa glöggir og áhugasamir menn tekið sig til og skrifað lýsingu á
fornleifum, sem fram hafa komið á þennan hátt, en hitt er þó oftar,
að menn hafa ýmist ekki sinnu eða ráðrúm til að hyggja neitt nánar
að slíku og muna svo óglöggt, þegar þeir ætla að fara að rifja upp
eftir á.
Það eru einkum byggingarleg smáatriði, sem gera má ráð fyrir
að menn rekist á, þegar verið er að grafa fyrir húsum, en ekki er við
slíkar aðstæður að vænta fróðleiks um húsaskipan eða lag heilla
húsa. Einkanlega heyrist oft imprað á, að merkileg eldstæði, hlóðir,
langeldstæði eða því um líkt hafi komið í ljós, en vanalega er lýsing
slíkra fornleifa svo almenns eðlis, að hún hefur ekkert gildi. Mjög
sjaldan eru sérfróðir menn tilkallaðir, þótt eitthvað athyglisvert beri
fyrir augu við undirstöðugröft á gömlum bæjarstæðum. Hér skal þó
skýrt frá einni undantekningu.
Hinn 29. júní 1945 sendi Matthías Þórðarson þjóðminjavörður mig
austur að Bakkárholti í ölfusi til þess að líta á fornleifar, sem þar
komu fram við húsgröft. Bóndinn, sem þá var í Bakkárholti, Gunn-
ar Þorleifsson, hafði árið áður byggt íbúðarhús á nokkuð öðrum stað
en gamli bærinn stóð á. Nú hafði hann verið að byggja fjós og hlöðu
á gamla bæjarstæðinu. Þegar grafið var fyrir húsum þessum, var