Eimreiðin - 01.01.1921, Blaðsíða 2
2
DR. MATTHÍAS JOCHUMSSON
IEIMREIÐIN
En þér getið skilið, að meðan svo er málum varið, er
ekki árennilegt að ætla sér að gefa neitt yfirlit yfir skáld-
skap eða einkenni síra Matthíasar í stuttri tækifæristölu.
Því hefi eg valið hinn kostinn: að henda smátt, taka eitt
smákvæði og fara um það nokkrum orðum. Eg vildi eg
gæti gert það á þann hátt, að það benti til, hvernig fram-
tíðin mun lesa kvæði hans. Eg tek kvæðið Dettifoss, ort
1888. Það er hvorki meðal snjöllustu né kunnustu kvæða
hans. Pað stendur ekki einu sinni í úrvalinu frá 1915.
En eg hefi lengi haft sérstakar mætur á því, fundist það
sýna inst í huga skáldsins, haft gaman af að hugsa um
þegar þessi tvö stórveldi stóðu hvort andspænis öðru. Af
furðuverkum náttúrunnar hefir ekkert fengið á mig eins
og Dettifoss. Af mönnum, sem eg hefi kynst, hefi eg dáðst
mest að sira Matthíasi.
I.
Reynið þér að hugsa yður Dettifoss, sem hafið ekki séð
hann. Jökulsá á Fjöllum, eitt af agalegustu íljótum þessa
lands, vaðlaus milli fjalls og fjöru, fellur þar ofan í end-
ann á 170 feta djúpri gjá. Ferðamaðurinn kemur á vest-
urbakkann, sér ána hverfa ofan í gljúfurkverkina og breið-
ast fram af austurbrúninni. En fossinn streymir ekki í
jafnri sífellu, hann dettur. Straumþungi árinnar er svo
ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að vatnið þeytist fram
af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundr-
ast í fallinu, leysast sundur í vatnsstjörnur, sem þjóta í
allar áttir og draga eftir sér úðahala. Nafnið Dettifoss er
valið með glöggri athugun.
Nýir og nýir flekar detta, hver ofan á annan, hverfa
ofan í mökkinn í gljúfrinu. Fossinn fellur endalaust, og
breytir þó mynd á hverju andartaki. Hann seiðir augað
til sín — alt í einu finst áhorfandanum bakkinn þjóta
með hann út í geiminn með ógnarhraða og grípur ósjálf-
rátt hendinni eftir einhverju að halda sér í. Og hugann
sundlar eins og augað. Þessi vitlausi, tilgangslausi tryll-
ingsleikur plægir sálina. Menn standa eins og frammi