Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1948, Side 163
166
bréfasafni óræk vitni. Vafalítið er og, að Svarti dauði hefir
haft hér nokkur áhrif, sem annars staðar í þjóðlífinu. En
allt um þetta hélzt kornyrkjan við suður við Faxaflóa, og
það svo að um munaði fram um 1550, en þá má heita, að
hún hverfi með öllu á örfáum árum.
Það virðist að vísu einkennilegt, ef byggðarlögin við Faxa-
flóa hafa ein haldið uppi kornyrkjunni að lokum, en þó
geta full rök til þess legið. Þarna var þéttbýlt, flestir bændur
stunduðu sjó, en liöfðu lítinn landbúnað sakir skorts á gras-
lendi. Þar var því hentugt að hafa akurblett til styrktar.
Loftslag er einnig milt í þessum sveitum. Það var því ekki
óeðlilegt, að þarna yrðu seinustu vígi kornyrkjunnar. En
hvers vegna leggst hún svo skyndilega niður?
Ég hygg, að þar hafi aukin sjósókn átt meginþáttinn.
Fiskiveiðarnar urðu stöðugt ábatasamari og ábatasamari og
eftirsóknin í skreið og lýsi jókst stöðugt. Fiskiveiðarnar
kröfðust meira og meira vinnuafls frá landbúnaðarstörfum,
en af þeim krafðist kornyrkjan mestrar vinnu, en gaf áreið-
anlega oft minnstan afrakstur. Um siðaskiptin verða hin
stórfelldu eignaskipti á jarðagózi landsins, er konungur
tekur undir sig klaustraeignir og kirkna. Einkum náði kon-
ungur þá eignarhaldi á jörðum í þeim sveitum, þar sem
kornyrkjan hélzt enn við. Það má fara nærri um, að fógetar
konungs hafi litið smáum augum á hin ótryggu mjölgjöld
af jörðunum, en um kapp þeirra að afla fiskjar og kvaðir
þær, er lagðar voru á konungslandseta er alkunnugt. Og það
hygg ég að hafi loks riðið kornyrkjunni að fullu, eftir að
hún hafði þó hjarað í nærfellt 7 aldir, þrátt fyrir versnandi
loftslag, drepsóttir og almenna hnignun þjóðarhagsins.