Morgunblaðið - 10.05.2001, Blaðsíða 36
LISTIR
36 FIMMTUDAGUR 10. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
HRAFNKELL Sigurðsson á sér
orðið langan og litríkan feril. Fyrir
stuttu var hægt að sjá upphaf hans á
hinni villtu minningarsýningu um
nýja málverkið í Nýlistasafninu.
Hrafnkell er kominn langan veg síð-
an þá, svo erfitt reynist að trúa því
að um sama listamanninn sé að
ræða. Þó er eflaust hægt að sjá ein-
hvern samnefnara svo sem hreinleg
vinnubrögð og sérstætt, fjarrænt og
eilítið svalt litaspil, fullt af þeirri áru
sem Walter heitinn Benjamin sagði
að varpaði hlutunum aftur fyrir ystu
sjónarrönd hversu nálægir sem þeir
annars væru.
Tjöld á snæviþöktum heiðum eru
einmitt slík fjarræn upphafin fyrir-
bæri þótt þau séu nálæg í metrum
talið. Styrkur þessa myndefnis staf-
ar í fyrsta lagi af því hve mikill mál-
ari Hrafnkell er í raun. Ljósmyndir
hans geisla af upphafinni fegurð.
Annaðhvort er það tjaldið sem glóir,
himinninn bak við það, himinninn
gegnum það eða snjórinn umhverfis
það. Ekki þarf að skoða myndir hans
lengi til að komast að því hve nærri
þær fara Heysátum Monet heitins. Í
fljótu bragði á sér stað sama tæm-
ingin í merkingu myndefnisins. Eins
og sáturnar eru tjöldin einvörðungu
litrænir áhrifamiðlarar, í flestum til-
vikum samhverf og miðlæg eins og
sáturnar.
Munurinn er þó sá að Monet og
Sáturnar voru þá, en Hrafnkell og
Tjöldin eru nú. Menn voru svo fegnir
á sínum tíma að Sáturnar skyldu
ekki tákna neitt að formalisminn
nýtti sér þær sem erkidæmi um
skipbrot frásagnarlistarinnar í sam-
félagi nútímans. Nú er öldin önnur
og menn varpa öndinni léttar ef þeir
finna einhvern vott um táknræna
merkingu bak við það sem annars lít-
ur út fyrir að vera merkingarlaust.
Víst er að Tjöldin hafa það fram
yfir Heysáturnar að vera nánast ein-
stæð fyrirbæri á snæbreiðunni sem
kalla fram ákveðnar spurningar.
Hver á tjaldið; hvað er það að gera
þarna; hví er það mannlaust? Engar
slíkar spurningar vakna frammi fyr-
ir Heysátum Monet, því það er ein-
faldlega ekkert dularfullt né sér-
stætt við þær. Allir vita fyrir hvað
slíkt myndefni stendur.
En fyrir hvað standa mannlaus
tjöld á snæ? Varla þurfti að spyrja
Íslendinga fyrrum hvað þeim datt í
hug frammi fyrir slíku myndefni.
Ein mesta harmsaga okkar, að
minnsta kosti á síðari tímum, snerist
um mannlaust tjald í fönn. Varla er
hægt að verjast hugsuninni um
Reynisstaðabræður frammi fyrir
myndum Hrafnkels þó svo að öll séu
tjöldin af nútímalegustu gerð og
sjálfsagt gjörólík þeim bústað þar
sem bræðurnir báru beinin. Engu að
síður er myndefni Hrafnkels í hæsta
máta rómantískt. Reyndar finnst
manni sem hann gæti hafa tekið
myndirnar á Kili, nærri Hveravöll-
um, ef ekki í hlíðum sjálfs Kjalfells.
Þannig er landslagið að minnsta
kosti, og rokrassinn sem feykir einu
tjaldinu.
En rómantískt eðli þessara mynda
stafar ekki einungis af mögulegum
tengslum þeirra við dramatísk örlög
Reynisstaðabræðra. Einmana-
kenndur mikilfengleikinn sem hvílir
yfir hverju tjaldi og hverri mynd
virkar eins og kraftbirting. Þessi
skyndihýbýli á heiðum uppi virka
allt í einu eins og mikilfenglegar leif-
ar horfinnar menningar í aftanskini
sólar, dumbungi eða húmi. Eitthvað
af saknaðardrunganum í verkum
Caspar David Friedrich býr áfram í
ljósmyndum Hrafnkels. Svo einfalt
er það, snjallt, nútímalegt og augna-
blikskennt, og þó svo óendanlega
ríkt, litfagurt, rómantískt, upphafið
og hlaðið mögulegri sögulegri hefð.
Þetta er trúlega það allra besta sem
komið hefur frá hendi Hrafnkels. Af
svona sýningu má enginn missa.
Morgunblaðið/Halldór Björn Runólfsson
Eitt af tjöldum Hrafnkels Sigurðssonar í Galleríi i8 við Klapparstíg.
Tjöld á snæ
MYNDLIST
i 8 , K l a p p a r s t í g 3 3
Til 16. júní. Opið þriðjudaga til
laugardaga frá kl. 13–17.
LJÓSMYNDIR
HRAFNKELL
SIGURÐSSON
Halldór Björn Runólfsson
ÆVISAGA Ted Hughes, skáldsaga
um hjónaband hans og Sylviu Plath
og sjónvarpsmynd um þau tvö er
allt væntanlegt á næstunni. Skáld-
konan Elaine Feinstein og vinkona
Hughes hefur nýlokið ævisögu
hans, þar sem hún nafngreinir ýms-
ar vinkonur og hjákonur skáldsins.
Rithöfundurinn Emma Tennant átti
í ástarsambandi við Hughes og hef-
ur nýlega skrifað „The Ballad of
Sylvia and Ted“, skáldsögu um síð-
ustu dagana í lífi Plath, sem hún
segir sjálf að sé rétt hvað allar
staðreyndir varði. Tennant hefur
áður sagt frá ástarsambandi sínu
við Hughes. Og BBC er að und-
irbúa sjónvarpsmynd, „Sylvia and
Ted“, þar sem Cate Blanchett mun
fara með hlutverk Plath að því er
segir í breska blaðinu Observer.
Það sem Feinstein þykist meðal
annars hafa fram yfir aðra er að
nafngreina og taka viðtal við konu,
sem stóð í langvarandi ástarsam-
bandi við Hughes eftir að hann
kvæntist aftur eftir lát Plath og þar
til sú kona, Assia Wevill, fyrirfór
sér sex árum síðar og drap um leið
fimm ára dóttur sína og Hughes.
Andagift og kynþokki
Ted Hughes fæddist sem Edw-
ard James Hughes 1930, sonur
smiðs, sem hafði barist í skotgröf-
um fyrri heimsstyrjaldarinnar og
var einn sautján manna sem lifðu af
orrustuna við Gallipoli. Þessi
reynsla föðurins markaði soninn
Ted, eins og fjölskylda og vinir
kölluðu hann og sem síðar varð
nafnið er hann varð þekktur undir
sem skáld. Hughes fékk styrk til að
stunda nám í Cambridge, þar sem
hann hóf nám í enskum bókmennt-
um, en lauk síðan prófi í forn-
leifafræði og mannfræði, sem allar
götur síðan átti hug hans.
Hughes byrjaði að yrkja sem
barn og það var undir lok náms-
áranna að hann gaf út bókmennta-
tímarit með vinum sínum. Í partíi í
tilefni af útgáfunni kynntist hann
hinni bandarísku Plath, sem var
líka skáld og tveimur árum yngri
en hann. Hún lýsti seinna fund-
unum þannig að þau hefðu bæði
stappað í gólfið af ákafa og hann
síðan kysst hana ástríðufullt á
munninn. Þau dvöldu um hríð í
Bandaríkjunum, þar sem hún fékk
stöðu sem háskólakennari og eig-
inmaðurinn einnig.
Það var á þessum tíma, sem
Plath aðstoðaði Hughes við að und-
irbúa útgáfu fyrsta ljóðasafns hans,
„The Hawk in the Rain“, sem kom
út 1957. Bókin hlaut strax góða
dóma og þar með var ferill Hughes
sem ljóðskálds kominn á flug og
hver viðurkenningin kom á fætur
annarri. Hámarksviðurkenning
breskra skálda er útnefningin lár-
viðarskáld og hana hlaut Hughes
1984. Þau Plath fluttu til Englands,
Plath átti erfitt með að uppfylla
kennsluskylduna, bjuggu um hríð í
Devon og eignuðust tvö börn,
stelpu og strák, fædd 1960 og 1962.
Líf Plath einkenndist af stöðug-
um ótta og angist. Faðir hennar dó
eftir langvinnan sjúkdóm er hún
var átta ára. Sem ung stúlka reyndi
hún að fyrirfara sér og hún efaðist
stöðugt um ást Hughes eins og
flest annað.
Plath komst að því að hann átti
hjákonu og hjónabandinu lauk með
skilnaði.
Hughes tók saman við Assia
Wevill og bæði þau og Plath fluttu
til London.
Það var svo 1963 að Plath fyr-
irfór sér. Sama gerði svo Wevill
1969, en sjálfsmorð hennar var enn
grimmilegra þar sem hún drap um
leið litla dóttur þeirra Hughes.
Stormasamt einkalíf
Wevill vissi að Hughes átti í ást-
arsambandi við konu, sem vann hjá
félagsmálastofnun í Devon. Þessa
konu kallaði Wevill sinn raunveru-
lega óvin og sagði hana eins og
Marilyn Monroe í mjórri útgáfu.
Hver konan var hefur ekki verið
ljóst fyrr en að Feinstein tók viðtal
við hana í sambandi við skrif sín á
ævisögu Hughes.
Þessi kona heitir Brenda Hedd-
en, en hversu lengi ástarsambandið
stóð er óljóst. Með henni átti hann
líklega barn, sem ekki hefur áður
verið vitað um. Feinstein hefur af-
hent handritið að bók sinni til út-
gefanda síns, Weidenfeld and Nich-
olson, sem gætir þess eins og
gersemar, enda mikil ásókn fjöl-
miðla í að birta safaríka hluta úr
bókinni.
Það virðist vera af nógu að taka
þegar Hughes á í hlut. Árið eftir
dauða Wevill kvæntist Hughes í
þriðja skiptið. Kona hans var Carol
Orchard, hjúkrunarkona og tuttugu
árum yngri en skáldið, en það
hjónaband entist honum ævina út
og ekkja hans er enn á lífi. Það er
þó vitað að Hughes átti í nokkrum
löngum ástarsamböndum jafnframt
hjónaböndunum. Hann virðist
gjarnan hafa haft tvær til þrjár
konur í takinu í einu, svo ævi-
söguritarar hafa af nógu að taka.
Hughes vildi aldrei ræða hjóna-
band sitt og Plath, en nokkrum
mánuðum áður en hann dó gaf
hann út ljóðasafn, „Birthday Lett-
ers“, sem fjallar um kynni þeirra
og samband. Bókin hlaut mikið lof
og seldist grimmt, þótti einkar op-
inská en var jafnframt full af hlýju
og hrifningu. Það kemur glöggt
fram hvað Plath var erfið í sambúð,
en hann kastar engri rýrð á hana
og hefur sagt að hún hafi aldrei
gert honum neitt illt.
Sylvia og Ted
Áhuginn á sambandi þeirra
Plaths og Hughes stafar ekki síst
af því að þau voru bæði fræg skáld.
Plath hefur einnig notið sérstakrar
athygli kvenkyns fræðimanna, sem
oft hafa látið í það skína að Hughes
hafi farið illa með Plath bæði sem
konu og skáldkonu og ekki sýnt
verkum hennar nægilega virðingu.
Hughes hefur viðurkennt að hafa
brennt síðustu dagbók Plaths, svo
börn þeirra sæju hana ekki, en
önnur dagbók hennar hvarf úr íbúð
hennar.
Í skáldsögu sinni endurgerir
Tennant síðustu dagana, sem Plath
lifði.
Frásögn sína byggir hún á því
sem Hughes sagði henni, en sam-
bandi sínu við Hughes hefur hún
þegar gert skil í endurminningum
sínum, ’Burnt Diaries’, sem komu
út 1999. Í sögunni segir hún frá
rifrildi, sem nágranni Plath heyrði
milli tveggja kvenna eftir að Hugh-
es kom í stutta heimsókn til Plath.
Kvikmyndin, sem BBC er með í
undirbúningi, byggist á handriti
eftir Lee Hall, sem gerði handritið
að kvikmyndinni um ballettstrákinn
Billy Elliot. „Ég vona að sérhvert
okkar eigi staðreyndirnar um líf
okkar,“ skrifaði Ted Hughes 1989,
þegar hann stóð í deilum við dán-
arbú Plath. Þegar frægt fólk eins
og Hughes á í hlut er eins og eign-
arhaldið á staðreyndunum sé á
reiki.
En af því áhugi lesenda er
tryggður fyrirfram þá eru margir
sem finna sig kallaða til að geta í
eyðurnar.
Kíkt undir
sængina
hjá lárviðar-
skáldinu
Ted Hughes og Sylvia Plath í Yorkshire árið 1956.
Lárviðarskáldið Ted Hughes var ekki að-
eins frægur fyrir ljóð sín og hjónabandið
með skáldkonunni Sylviu Plath, segir Sig-
rún Davíðsdóttir, heldur einnig fyrir að
vera fjölþreifinn í kvennamálum. Það er
gott efni í bækur og kvikmyndir.