Morgunblaðið - 10.05.2001, Blaðsíða 84
OPNUNARMYNDARINNAR á
Cannes í ár, Moulin Rouge!, hefur
verið beðið með mikilli eftirvæntingu.
Myndin hefur tekið óratíma í fram-
leiðslu, ein þrjú ár, enda er um stóra
mynd að ræða hvar og hvernig sem
litið er á hana. Hún er mikið og ríku-
legt sjónarspil sem á sér stað undir
lok 19. aldar á hinum fornfræga og
goðsagnarkennda skemmtistað í Par-
ís sem ber nafn myndarinnar.
Dansað og sungið
Það vekur athygli að líkt og sig-
urmynd hátíðarinnar í fyrra, Myrkra-
dansarinn eftir Lars Von Trier, þá er
þessi, ein mest sótta myndin í ár,
einnig uppfull af söngvum og dönsum
sem virðist gefa sterklega til kynna að
tími dans- og söngvamynda sé í raun
og veru upp runninn á ný eins og
margir spáðu að ætti eftir að gerast í
kjölfar velgengni Myrkradansarans.
Munurinn á myndunum er hins vegar
sá að í stað frumsaminna laga Bjarkar
í Myrkradansaranum eru Rauða
myllan uppfull af mörgum af helstu
dægurlagaperlum samtímans, lögum
sem flestir ef ekki allir ættu að kann-
ast við. Myndinni svipar þannig frem-
ur til Everyone Says I Love You, óðs
Woodys Allens til þessa gamla og
gleymda kvikmyndaforms, en líkt og í
þeirri mynd vinda leikarar sér í tíma
og ótíma í að söngla fræga slagara
sem lýsa tilfinningum þeirra og at-
burðarás. Þannig bregða stórstjörnur
myndarinnar Nicole Kidman og Ew-
an McGregor undir sig betri fætinum
og syngja lög á borð við lag Eltons
Johns „Your Song“, „Heroes“ Davids
Bowies, „Pride (In The Name of
Love)“, „Smells Like Teen Spirit“,
„One Day I’ll Fly Away“ og jafnvel „I
Was Made For Loving You“ sem Kiss
gerðu vinsælt á árum áður! Þótt þessi
upptalning virðist í fyrstu óttalegur
grautur þjóna lögin ákveðnum til-
gangi í myndinni.
Þeir sem þekkja til fyrri verka
Ástralans Baz Luhrmanns, sam-
kvæmisdansamyndarinnar Strictly
Ballroom og Shakespeare-myndar-
innarinnar fyrir MTV-kynslóðina
Romeo + Juliet hafa komist að raun
um að hann hefur ætíð notað tónlist í
ríkum mæli og hefur allsérstæðan stíl
sem dregur allt í senn dám af ástr-
alskri kvikmyndagerð, indverskum
Bollywood-myndum, tónlistarmynd-
böndum og síðast en ekki síst gömlu
dans- og söngvamyndanna frá Holly-
wood. Sagan er einföld og sígild ást-
arsaga sem inniheldur Orpheusar-
minni um unga skáldið sem hugfangið
er af ástinni og leitar hennar í undir-
heimunum og finnur hana í fyrsta
sinn þegar það fellur fyrir dauðvona
gyðju.
Can-can á La Croisette
Þátttakendurnir á blaðamanna-
fundinum, sem haldinn var í gærdag í
kjölfar sýningar, voru sex. Leikstjór-
inn Luhrmann og helstu leikararnir;
Nicole Kidman, sem leikur stjörnu
Moulin Rouge, Satine; Ewan
McGregor, sem leikur rithöfundinn
ástfangna Christian; Richard Rox-
burgh, sem leikur hinn illa hertoga;
John Leguizamo, drykkfelldur dverg-
ur sem er vinur Christian og Jim
Broadbent, sem leikur stjórnanda
Myllunnar.
„Myndin er lokahluti þrennu sem
ég hef kosið að kenna við rauða for-
tjaldið,“ útskýrir leikstjórinn og er
augljóslega vel stemmdur og mjög í
mun að fá að greina blaðamönnum frá
hinu langþráða verki sínu. Áður en
hann fékk orðið hafði skeleggur
stjórnandi fundarins, Henri Behar,
kynnt hann til sögunnar sem mann-
inn sem var ábyrgur var fyrir því að
menn fengu æði fyrir samkvæmis-
dönsum árið 1992 með Strictly Ball-
room og nú muni honum enn takast
að hleypa fiðringi í tærnar á fólki og
fullvíst sé að hátíðargestir muni
dansa trylltan can-can á aðalgötu
Cannes í ár.
„Myndirnar þrjár hafa allar á sinn
hátt verið „leikhúslegar“ og þar kem-
ur viðfangsefni Moulin Rouge inn í
myndina. Þær eru allar hádramatísk-
ar, ljóðrænar lýsingar einkenna þær
og því þótti mér bóhemalífið í París
um aldamótin þarsíðustu henta
einkar vel sem sögusvið – allar tilfinn-
ingarnar sem þar voru í spilinu og hin
barnslega rómantík sem sveif yfir
vötnum. Ég rannsakaði tímabilið í
þaula, sótti sýningar á Moulin Rouge,
þar sem við rétt misstum af því að sjá
Latoyu Jackson glíma við snák! Ég
valdi þetta sögusvið einnig vegna þess
að dægurmenning þessa tíma kristall-
aðist hvergi betur en á þessum
skemmtistað.“
Ólympíuleikar
kvikmyndanna
Ástralskur blaðamaður spurði síð-
an Kidman hvort hún gerði sér grein
fyrir því að ástralskar dansmeyjar
hefðu verið áberandi margar á Moulin
Rouge á sínum tíma vegna þess að
það væri staðreynd að þær væru
leggjalengri en þær frönsku! Þessi
hæpna og kannski svolítið þjóðremb-
ingslega fullyrðing kom leikkonunni
augljóslega talsvert á óvart og hún
hafði greinilega ekki hugmynd um
hvernig hún ætti að bregðast við
henni og svaraði því: „Ég hafði bara
ekki hugmynd um það,“ náði hún
loksins að segja fremur óörugg en
bætti svo við af heldur meira öryggi:
„Gott fyrir þær!“
Eitt meginumræðuefni blaða-
mannafundarins var hvort myndin
væri áströlsk eða bandarísk. Ástr-
ölskum blaðamönnum var mjög um-
hugað um þetta atriði, kannski skilj-
anlega því þótt myndin sé að mestu
leyti unnin af áströlsku kvikmynda-
gerðarfólki og áströlsk sem slík er
hún framleidd af bandaríska stórfyr-
irtækinu 20th Century Fox og því oft
sögð bandarísk. Luhrmann bjóst
greinilega við því að þessi spurning
yrði borin upp og fagnaði því. Hann
svaraði því til að sér þætti kvikmynd-
in sem listform vera alþjóðlegt fyr-
irbæri og ætti því ekki að vera kennd
við eina þjóð framyfir aðra: „Ég hef
tekið eftir því að hér á hátíðinni er
myndin sögð áströlsk (stangast á við
heimildir blaðamanns) og ef við erum
stödd á ólympíuleikum kvik-
myndanna græt ég að svo sé.“
Lagavalið í myndinni hefur vakið
mikla athygli og Luhrmann var innt-
ur eftir því hvernig það hafi komið til:
„Þetta er engan veginn handahófs-
kennt lagaval eins og margir virðast
halda. Í fyrsta lagi þótti mér nauðsyn-
legt að hafa dægurlög úr samtíman-
um, lög sem áhorfendur þekktu, í
mynd um Moulin Rouge, því staður-
inn hefur ætíð snúist um tísku og tón-
list samtímans. Fólk hefði hins vegar
ekki tengt hann við hundrað ára göm-
ul dægurlög. Í öðru lagi samtvinnast
texti og stemmning laganna fullkom-
lega við handritið, persónurnar eru að
túlka tilfinningar sínar með þessum
lögum. Það skýrir hvers vegna
Christian játar Setine ást sína með
því að yrkja til hennar „Your Song“.“
Viðkvæmt
viðfangsefni
Viðfangsefnið, sem margir óttuðust
mest að blaðamenn færu út í, storma-
samt einkalíf Kidman, skilnaðurinn
við Tom Cruise og fósturmissirinn,
virtist þar næst ætla að skjóta upp
kollinum þegar kanadískur blaða-
maður hóf spurningu sína á þeim nót-
unum. Mönnum létti því mikið þegar
hann beindi spurningu sinni inn á aðr-
ar brautir, allra helst Kidman sjálfri,
sem þakkaði kærlega fyrir að þurfa
ekki að svara óþægilega persónuleg-
um spurningum um það sem kæmi
myndinni ekkert við. Blaðamaðurinn
kanadíski spurði hana hinsvegar, eða
öllu heldur benti á að myndin hlyti að
hafa mikla þýðingu fyrir hana fyrst
hún hefði kjark til að horfast í augu
við blaðamenn á þessum erfiðu tím-
um. „Ég er mjög stolt af myndinni.
Við lögðum öll mjög hart að okkur og
biðum lengi, lengi, eftir að hún klár-
aðist.“ Leikaraliðið skellir upp úr og
Luhrmann slær á læri sér og segir:
„Það er bara svona! Ég skal bara
segja ykkur það að myndin er ekki
búin. Ég á ýmislegt eftir ógert.“ Mað-
urinn er augljóslega að grínast.
Það lá vel á leikurunum á blaða-
mannafundinum. Þau töluðu um
hversu samrýnd þau urðu á meðan á
kvikmyndun stóð – og það sást vel á
fasi þeirra og viðmóti í garð hvert
annars. Leikararnir lýstu aðdáun
sinni á leikstjóranum og tilfinningin
er gagnkvæm. Að fundi slitnum hóf-
ust lætin; blaðamenn og ljósmyndar-
ar flykktust að Kidman og McGregor
og báðu um eina setningu eða skot og
blaðamaður heyrði kollega sinn segja;
„ef Kidman var ekki orðin sönn kvik-
myndastjarna, þá er hún það núna!“
Nicole Kidman og Ewan McGregor eru stjörnur opnunarmyndarinnar í Cannes
Dagur Rauðu
myllunnar
Nicole Kidman veifar til fjöldans við opnun 54. Cannes-hátíðarinnar. Það var sannkölluð can-can-stemmning við opnun Cannes-hátíðarinnar.
Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Nicole Kidman ásamt leikstjóranum, Baz Luhrmann.
Moulin Rouge! eftir Ástralann Baz
Luhrmann opnaði Cannes formlega
í gærkvöldi en myndin er þar að auki
í aðalkeppninni í ár. Skarphéðinn
Guðmundsson og Halldór Kolbeins
ljósmyndari fylgdust með þessum degi
Rauðu myllunnar, sóttu blaðamannafund
með aðalstjörnunum og sáu þær
ganga rauða dregilinn.
FÓLK Í FRÉTTUM
84 FIMMTUDAGUR 10. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Reiðskólinn Hrauni
Grímsnesi sumarið 2001
Nám-
skeið Tímabil Stig
1. 4. júní - 9. júní I.
2. 11. júní - 16. júní I. og II.
3. 21. júní - 26. júní I.
4. 2. júlí - 7. júlí I. og II.
5. 10. júlí - 15. júlí I.
6. 18. júlí - 23. júlí I.
7. 26. júlí - 31. júlí I. og II.
8. 8. ág. - 13. ág. I. og III
9. 16. ág. - 21. ág. I.
II. og III. stig eru fyrir nemendur
sem lokið hafa I. stigi.
Nemendur eru velkomnir
með sína eigin reiðhesta.
Sími 567 1631 og 897 1992
Netfang: rh@mi.is
...þar sem hestamennskan hefst!