Réttur - 01.07.1951, Page 33
RÉTTUR
177
Sigur verkalýðsins.
Þegar tekið er tillit til allra aðstæðna, verður sá sigur sem
verkalýðurinn vann með þessum málalokum að teljast hinn mik-
ilvægasti. Hér áttu verkalýðssamtökin eigi aðeins í höggi við
óvenjulega vel undirbúin og skipulögð samtök atvinnurekenda.
Baráttan var einnig og ekki síður háð við ríkisstjórnina, sem hafði
tekið við ákveðnum fyrirmælum Bandaríkjastjórnar um að hindra
alla hækkun kaupgjalds á íslandi — og hafði þegið 100 millj.
að gjöf gegn loforði um að þetta skyldi takast. Kaupgjaldsbaráttan
var því ekki aðeins venjuleg hagsmunabarátta, hún var um leið
barátta gegn öllu því mútu- og kúgunarkerfi, sem bandarískt
auðvald hefur komið upp á Islandi, með tilstyrk íslenzkra vald-
hafa. Hún beindi geiri sínum að kjarna sjálfrar marsjallstefnunn-
ar: hinni fyrirskipuðu skerðingu á lífskjörum verkalýðsins. Kaup-
gjaldsbaráttan í maí var uppreisn íslenzka verkalýðsins gegn þeim
síversnandi lífskjörum sem honum hafa verið búin af svikulum
valdhöfum, sem telja þjónustuna við bandarískt auðvald æðstu
skyldu í öllum störfum sínum, og ganga erinda þess leynt og
ljóst gegn hagsmunum íslands og íslendinga. Og þótt valdhafarnir
hygðust sækja móralskan styrk í þessari baráttu til hins nýkomna
bandaríska innrásarliðs, varð koma þess verkalýðnum aðeins eggj-
andi hvöt til þess að ganga með sigur af hólmi í átökunum, sem í
hugum allra íslendinga voru einnig upphaf að og þáttur í þeirri
nýju þjóðfrelsisbaráttu, sem íslendingar eiga nú framundan við
bandarískt auðvald og hervald.
En verkalýðurinn varð einnig að berjast á fleiri vígstöðvum.
Andstæðingar hans notuðu yfirráð sín í heildarsamtökunum til
þess að torvelda baráttuna, leiða hana í fyrirsjáanlegar ógöngur,
skapa sundrungu og uppgjöf, þegar mest á reyndi að sýna samhug
og festu. Við slíkar aðstæður hefur verkalýðsstéttin sjaldan þurft
að heyja jafn örlagaríka hagsmunabaráttu. En eigi að síður tókst
henni að vinna sigur á hinum marghöfðaða andstæðingi, sem við
var að etja. Slíkt undravopn er eining verkalýðsins, hert í eldi
sameiginlegrar baráttu fyrir hagsmunum og lífsafkomu verka-
lýðsstéttarinnar.
12