Menntamál - 01.12.1949, Síða 13
MENNTAMÁL
135
af hans beinum í andlegum skilningi og þó einkum blóð af
hans blóði. Þeir, sem þekktu Sigurð og þótti vænt um hann,
þykir einnig vænt um þennan stíl. Ef til vill nýtur hann
sín hvergi betur en í mannaminnunum. Þar kemur að
minnsta kosti sums staðar betur fram fjör hans í hugsun
og léttleiki í framsetningu, sem hann var ríkulega gædd-
ur og naut sín með ágætum í orðræðum hans.
Fáir menn, hygg ég, að hafi vandað jafnt ritverk sín og
Sigurður. Hann var alltaf að breyta þeim og bæta þau jafnt
í próförk sem handriti og varð aldrei laus við þau, fyrr
en prentvélin sleit hann frá þeim. Hann vitnaði líka oft í
þessi viturlegu orð, sem rituð eru í formála fyrir málfræði-
ritgerð í Snorra-Eddu: „Leiti eftir sem vandlegast þeir,
sem nú vilja fara að nýjum háttum skáldskapar, hversu
fegurst er talað, en eigi hversu skjótt er ort, því að að
því verður spurt, hver kvað, þá er frá líður, en eigi, hversu
lengi var að verið.“
Störf Sigurðar Guðmundssonar voru mikil og þjóðinni
farsælleg, en eigi verður svo innt frá vei’kum hans, að þar
verði konu hans, frú Halldóru Ólafsdóttur, ekki einnig
getið. Þrek hennar og þróttur efldi hann og styrkti í lífs-
baráttu, sem mæddi oft hart á honum og gekk honum nærri.
Honum var þörf jafnvel fremur flestum mönnum aðhlynn-
ingar og örvunar, og þetta veitti hún honum af örlæti
hjarta síns. Hafa þau hjón hlotið að eiga við naum kjör
að búa. íslenzkir kennarar hafa aldrei haft af ofrausn að
segja um launakjör, ef þeir hafa fórnað embættisskyldun-
um öllum kröftum. Sigurður tók aldrei að sér aukastörf,
hann vann skólanum heill og óskiptur. Bar það dugnaði,
manndómi og hagsýni frú Halldóru órækt vitni, að hún
skyldi geta haldið heimilið af sílkum myndarbrag og rausn,
sem landskunn er, við jafnlítil efni. Samt átti hún krafta
aflögu til að sinna verkefnum, sem lágu utan vébanda
heimilisins. Sú mikla rækt, sem hún lagði við skólagarð-
inn, sýndi ljóslega þörf hennar og þrá til að fegra og prýða