Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 15
Rætt við Jónas Pálsson
Ég var dálítið inikið að flýta mér á þessum árum. Ekki var ætlunin að fara í
langskólanám - það var mér fjarlægt. í Ingimarsskólanum kynntist ég strákum úr efri
bekkjunum sem ætluðu að taka próf inn í 2. bekk Samvinnuskólans, en hann var
tveggja ára skóli. Einhvern veginn fékk ég þá flugu í höfuðið að reyna þetta líka. Ég
hélt því á fund skólastjórans, Jónasar frá Hriflu, sem þá bjó í „Hvíta húsinu",
Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu. - Hann kom sjálfur til dyra í sloppnum sínum og
inniskóm, nokkuð slitnum og niðurtroðnum á hælunum. Ég man ekki lengur hvað
okkur fór á milli en hann leyfði að ég fengi að taka millibekkjarprófið, þó að ég væri
raunar ári yngri en miðað var við til inngöngu í 1. bekk. Jónas fór nú ekki alltaf eftir
settum reglum eins og menn vita og sagði að ég mætti reyna. Prófið hófst í byrjun maí
og var prófað í allmörgum greinum, m.a. íslensku, stærðfræði og bókfærslu. Það vildi
til að ég hafði af rælni lært svolítið í bókfærslu heima í Beingarði gegnum bréfaskóla
SÍS. Ég hafði auk þess tekið nokkra einkatíma þennan vetur í bókfærslu hjá Þorleifi
Þórðarsyni (síðar forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins) og í sögu og félagsfræði hjá Skúla
Þórðarsyni sagnfræðingi sem þá var nýkominn frá Kaupmannahöfn og bjó einn í
herbergi, að mig minnir á Sjafnargötunni.
lnntökuprófum lauk 9. maí. Ég var orðinn mjög þreyttur og svaf á mitt græna eyra
fram eftir morgni. Svo þegar ég loks kemst á ról finnst mér bærinn eitthvað svo
undarlegur. Neðar á Laufásveginum mæti ég fólki sem ávarpar mig að fyrra bragði, en
slíkt var ekki algengt í þá daga, og fer að tala um þessi tíðindi sem orðið hafa en ég er
algerlega úti á þekju - vissi ekki að ísland hafði verið hernumið um nóttina. Ég leitaði
uppi bekkjarbróður minn Gunnlaug, son Steindórs frá Kiðabergi, stjórnarráðsfulltrúa,
sem átti hesta. Við fórum síðdegis ríðandi á stríðöldum gæðingum um Reykjavík og
nágrenni og könnuðum ástandið. Ég hefi oft undrast síðan að enginn skyldi skotinn í
Reykjavík og nágrenni þennan fyrsta hernámsdag.
Einhvern veginn slampaðist ég gegnum prófið. En vegna aðstæðna heima, e.t.v. af
fjárhagsástæðum, gat ég ekki haldið suður haustið 1940 og var heima í Beingarði þann
vetur. Það er svo skemmst frá því að segja að ég lýk prófi frá Samvinnuskólanum vorið
1942.
Menntaskólinn á Akureyri
Ég var svo heppinn að fá starf á skrifstofu Sambandsins á Akureyri um haustið og mun
frænka mín, Klara Jónasdóttir, sem vann í áratugi á aðalskrifstofu SÍS í Reykjavík, hafa
stutt að þeirri ráðningu og var það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem hún greiddi götu
mína.
Það er ekki fyrr en haustið 1944, eftir að hafa tekið inntökupróf í 4. bekk utanskóla
eins og þá var mjög algengt, að ég byrja í Menntaskólanum. Ég held það hafi verið
nokkrir tugir ungs fólks víðs vegar að af landinu sem þreyttu prófið vorið 1944. Ég
dvaldi samfleytt nær fimm ár á Akureyri. Það eru góð ár í minningunni. Ég hafði fengið
loforð fyrir herbergi á leigu í húsi við Brekkugötu, þar sem þá bjuggu hjónin Asrún
Jörgensdóttir frá Syðri-Vík og Ólafur Metusalemsson frá Burstarfelli í Vopnafirði. Þau
sýndu þessum aðkomupilti þá velvild að taka hann einnig í fæði og reyndust mér raunar
á flestan hátt eins og ég væri einn af fjölskyldunni. Stuðning þeirra og góðvild þakkaði
ég aldrei sem skyldi.
13