Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 17
Rœtt við Jónas Pálsson
Hvers vegna sálarjrœði?
Ég held það hafi bara verið öðrum þræði „komplexar“ mínir. - Það verður að segjast
eins og er, að margir byrja nám í sálarfræði til að leysa úr sínum eigin flækjum. Þó að
ástandið hjá mér hafi e.t.v. ekki verið mjög slæmt, þá er þetta samt alltaf umhugsunar-
efni. Raunar þóttist ég líka vita að þessi grein væri að sækja á og ég vissi af ungum
mönnum sem höfðu lært þessi fræði, eins og t.d. Brodda Jóhannessyni, senr var líka úr
Skagafirðinum. Maður hafði heyrt mikið af þessum snargáfaða unga manni sem kom
heim frá Þýzkalandi haustið 1940, einn af Petsamó-förum - með doktorspróf upp á
vasann aðeins 24 ára gamall. Kannski vissi ég líka að annar Skagfirðingur, Sigurjón
Björnsson, var í þann veginn að leggja af stað til Frakklands í sálfræðinám. Sjálfsagt
hefur þetta og margt fleira haft einhver áhrif.
Ég var svo heima sumarið eftir fyrsta veturinn í Edinborg. Kópavogur var í örum
vexti. Ég vann á hreppsskrifstofunni að einhverjum hluta en að mestu leyti með
vinnuflokki sem var að leggja vatnsveituna. Vinnubrögðin við lagningu hennar voru
mjög frumstæð - við höfðum bara haka, skóflur, járnkarla og loftpressu en stórgrýtið í
Kópavogi er ekkert grín. Ég hresstist mjög við þessa erfiðisvinnu eftir þjakandi vetur í
Edinborg. Ég hafði aldrei smakkað áfengi fyrr en ég kom til þeirrar góðu borgar. A því
varð þó skjót breyting við komuna þangað - mér þótti bjórinn ákaflega góður. Samt las
ég talsvert og reyndi að halda mér við efnið.
Gráðan sem ég fékk út úr mínu námi nefnist M.A.-ord. og byggðist hjá mér á
sálarfræði og sögu sem aðalgreinum. Þetta próf var nú ekki mikils virði, eiginlega n.k.
B.A.-próf, og veitti mér í rauninni ekki réttindi til að kalla mig fræðing af einu né
neinu tagi. Ég var í raun og veru ekki í þeim hugleiðingum heldur, þótt mál þróuðust á
annan veg.
Undir handarjaðri Vilmundar og Matthíasar
Finnbogi Rútur útvegaði mér vinnu hjá Vilmundi landlækni eftir heimkomuna frá
Edinborg sumarið 1952. Gretar Fells, sem hafði verið um 30 ár ritari hjá landlækni,
fékk orlof í 6 mánuði og ég var ráðinn á meðan sem staðgengill hans í „andlegu
deildina" (orðalag Vilmundar, hann var í „veraldlegu deildinni"). Þetta var lærdómsríkur
tími fyrir mig. Vilmundur sýndi mér alltaf mikla nærgætni þó ég heyrði hann stundum
vera hvassan í orðum við aðra. Þarna varð ég loksins fullnuma í að þéra fólk. Ég held
samt að honum hafi ekki fundist mikið til um mína kunnáttu, a.m.k. ekki í stafsetn-
ingu, enda hafði ég einhvern veginn sloppið í gegnum skóla án þess að rita z í
sagnorðum, en af einhverri meinfýsi skrifaði ég oftast z í stofni orða svo sem „helzt“ og
„bezt“. Skrifstofan átti eina vonda ritvél og nú var kominn vélritari sem var jafnvel enn
lakari en vélin. Sagan segir að Vilmundur hafi á hverju ári sótt um peninga til að kaupa
nýja ritvél en það gekk aldrei. Vilmundur skrifaði alveg frábæra rithönd og það hefði
verið miklu skemmtilegra að senda bréfin hans handskrifuð. Sagt var að Vilmundur
notaði þessi ritvélakaup sem nöldursefni sér til skemmtunar. Auðvitað gat hann keypt
sér ritvél en það skyldi fara rétta boðleið. Þetta segir heilmikið um vinnubrögð og
afstöðu Vilmundar hvað sem sannleiksgildinu líður.
15