Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 128
Helgi Skúli Kjartansson
Frá Rómaríki til rómverskrar kristni
Latínan mátti, þegar hér var komið, muna tímana tvenna og þrenna. Hún var
upphaflega mál Rómaborgar og nærsveita.4 5 Sigursæld Rómverja gerði hana að
tungumáli heimsveldis. Raunar gekk gríska jafnframt sem alþjóðamál um austurhluta
Rómaveldis; þar hafði sigursæld Alexanders mikla fest grískuna í sessi áður en
Rómverjar komu á vettvang, og latínan varð aðeins mál stjórnsýslu og herstjórnar.-1’
En í vesturhluta ríkisins varð latínan eina ritmálið og síðan smám saman almennt
talmál, enda eru þjóðtungur nútímans á þessum slóðum af henni runnar, þ.e. rómönsku
málin.
Kristin trú, sem upprunnin er í austurhluta Rómaveldis, eignaðist heigirit sín, Nýja
testamentið, á grísku, og á því máli hafa helgisiðir kirkjunnar upphaflega mótast. I
vesturhluta rfkisins voru ritningar og ritúöl fljótt þýdd á latínu, enda var grískan þar
ekki aðgengileg nema hámenntuðu fólki.
Nú leið að því að Rómaveldi riðaði til falls í umróti þjóðflutninganna, og vestur-
hluti þess leystist upp á 5. öld. En latínan hélt velli. Germanskar þjóðir, sem lögðu
undir sig lönd Rómaveldis og gerðust vfða ráðandi stétt, tóku þegar upp latínuna sem
ritmál, og sem talmál tileinkuðu germanir sér fljótlega þær mállýskur alþýðlegrar
latínu sem fyrir voru í löndunum. Þær voru að vísu orðnar nokkuð fjarlægar ritmálinu
- og enn fjarlægari hinni klassísku latínu gullaldarskálda. En kirkjan virti
mállýskurnar að vettugi og hélt sig við bókmálið. Þannig varð latínan smám saman
helgimál, óskiljanlegt almenningi. Aðgang að henni höfðu þeir einir sem lagt höfðu
stund á hana sem námsgrein.6
Að halda við latínulærðri klerkastétt var verkefni sem gleypti mestalla krafta
menntakerfis miðalda. Raunar varð það aldrei nema hluti klerkastéttarinnar, misstór þó
eftir tímabilum, sem náði valdi á latínu sem raunverulegu tungumáli. Hinir fáfróðustu
voru aðeins stautfærir á þá texta sem lesa þurfti eða tóna við athafnir kirkjunnar; aðrir
voru nokkurn veginn læsir á málið; en vel lærðir menn töluðu og rituðu latínu
fyrirhafnarlaust.
Latínan var miðaldamönnum hvarvetna nálæg. Hún var notuð við guðsþjónustur og
prestsverk, og bænalífið byggðist á utanaðlærðum latínubænum. Víða voru embættis-
skjöl rituð á latínu, bæði hjá kirkjulegum og veraldlegum yfirvöldum, og diplómatísk
samskipti þjóðhöfðingja fóru oft fram á latínu. Fræðirit voru almennt samin á latínu,
og hún var alþjóðlegt samskiptamál lærdómsmanna, bæði í ræðu og riti. Andspænis
þjóðtungunum var latínan „æðra mál“; á henni fengu hugmyndir og hugtök sinn
algilda búning, sem þjóðtungurnar urðu að líkja eftir. Af þessum sökum var sjálfsagt
4 Nafn dregur hún af nærsveitunum; þær hétu að fornu Latium.
5 Því nægði Pílatusi ekki að festa sakargift Jesú á krossinn, ritaða á latínu sinni og
hebresku hans, heldur jafnframt á grísku (Jóh. 19, 20).
^ Námsgreinum miðaldaskólanna er stundum lýst án þess að latínunnar sé getið. Þess í
stað er greint frá „lærdómslistunum sjö“ er skiptust í „þríveginn", þ.e. málfræði,
rökfræði og mælskulist, og „fjórveginn“, þ.e. reikningslist, rúmfræði, stjarnvísi og
tónlist. En málfræðin, rökfræðin og mælskulistin snerust um latneskt mál og
latlnutexta. „Þrívegurinn" varð í raun latínunám og latínulestur með guðfræðilegu
ívafi. „Fjórvegurinn" mætti oftast nær afgangi.
126
J