Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 130
Helgi Skúli Kjartansson
Menntun, bæði þjóðleg en þó einkum hin klerklega, kostaði tíma og tilsögn og var
ekki á allra færi í fátæku landi. En sumar ættir höfðu ráð á að mennta syni sína, og á
12. og 13. öld var komið í tísku í Evrópu að fyrirmenn hefðu nokkra nasasjón af
bóklegum fræðum. Bókhneigðir og vel gefnir höfðingjasynir hafa lagt stund á latnesk
og þjóðleg fræði jöfnum höndum og átt hvað drýgstan þátt í blómlegri bókmenningu
íslands.11 Vel lærðir klerkar gátu talað latínu sem daglegt mál ef þeir komust í
félagsskap lærðra manna, t.d. í erlendum skólum eða klaustrum, notað latínurit við
fræðiiðkanir sínar, jafnvel gerst rithöfundar á því máli.
Latína og lútherstrú
Tungumál eru sjaldan óbreytt öld fram af öld, og síst ef samfélagið sem notar þau hefur
tekið stakkaskiptum. Miðaldalatínan var líka á margan hátt orðin frábrugðin klassískri
Iatínu. Breytingarnar voru yfirleitt til einföldunar og gerðu málið viðráðanlegra sem
námsgrein. En, eins og alltaf er um breytingar á tungu sem á sér gamla rithefð, þá
gerðu þær tengslin erfiðari við menntaarf fornaldar.
Á miðöldum gætti einnig viðleitni til að halda latínunni í klassískum skorðum.
Slfk málverndarstefna latínumanna fór jafnan saman við áhuga á sögu og menningu
fornaldar. Öflugust varð hún á tímabili endurreisnarinnar sem mótaði menntalíf Italíu
og síðan allrar Vestur-Evrópu og stóð hæst um og upp úr 1500. Það sem endurreisnar-
menn vildu endurreisa var einmitt menning fornaldar, bæði grísk og rómversk. Á
latínu áttu menn umfram allt að lesa gullaldarbókmenntir og helst að tala og skrifa í
þeirra stíl. Þetta gerði latínuna enn mikilvægari sem námsgrein og um leið þyngri. (Á
mælikvarða endurreisnarinnar hefur Jón karlinn Arason víst ekki verið neinn
latínumaður.)
Samtímis voru það æ fleiri sem leituðu sér bóklegrar menntunar, ekki einungis
verðandi klerkar, heldur piltar sem bjuggu sig undir fræðimennsku og embættisstörf,
eða höfðingjasynir sem sóttust eftir almennri menntun án þess að þurfa að lifa af
henni. Skólaganga jókst, og alltaf var latínan sú námsgrein sem langmest orka fór í
hjá þeim sem á annað borð stunduðu alvarlegt bóknám.
Þótt rómverskar fornmenntir nytu vaxandi hylli, þá þrengdist verkahringur
latínunnar í hinn endann. Skáldrit og skemmtibókmenntir var yfirleitt farið að semja á
þjóðtungunum, fræðirit að nokkru marki líka, og þýðingar á bókum drógu úr þörfinni
fyrir yfirþjóðlegt ritmál. Þótt latína væri enn alþjóðamál klerka og fræðimanna, voru
ítalska og seinna franska að taka við sem samskiptamál diplómata og tignarmanna.
Þá þrengdist svið latínunnar mjög sviplega með siðaskiptunum, því að kirkjur
mótmælenda lögðu hana að miklu leyti fyrir róða sem helgimál. Hjá lúthersku
* Ef Hákon gamli hefði kosið að sætta Snorra Sturluson og Gissur Þorvaldsson, í stað
þess að etja þeim saman, hefði víst mátt halda sáttafundinn á latínu. Hákon lét lesa
fyrir sig bækur á latínu (frönsk rit og ensk þurfti hins vegar að þýða fyrir hann);
Gissur var djákni að vígslu og undrabarn að gáfum, þannig að hann hefur væntanlega
komist nokkuð niður í latínu; og hámenntamaður eins og Snorri hlaut að leggja rækt
við latnesk fræði.