Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 163
IngólfurA. Jóhannesson
kennarafræði, sbr. hér að framan) til kennaramenntunar sé t samanburði við framlag
hefðbundinna akademískra greina.
Ég undirstrika að hér er ekki um hefðbundinn ritdóm eða neins konar gæðamat á
ritgerðum Erlu, Baldurs, Sigurðar og Stefáns að ræða. Ég er að vísu sammála Hreini
Pálssyni um að þessir „höfundar hafi ekki lagt niður fyrir sér sameiginlega
vinnuskilgreiningu á hugtakinu ,álitamál‘ áður en þeir gengu til verksins."63
Höfundarnir fjórir skilgreina hér álitamál einfaldlega út frá ólíkum sögulegum og
pólitískum hugmyndastraumum, eða löggildingarlögmálum, á vettvangi mennta-
umbóta. Ritgerðirnar eru lifandi dæmi um togstreitu kennarafræðakapftals og
hefðbundins akademísks kapítals. Sameiginleg „vinnuskilgreining“ hefði trúlega litlu
breytt. Reyndar er líklegt að þegjandi og sennilega ómeðvitað samkomulag hafi ríkt um
það að takast ekki á um merkingu hugtaksins álitamál þannig að hver höfundur gæti í
raun beitt sínum eigin skilningi.
Ályktunarorð
í ræðu og riti hafa umbótasinnar úr forystu Skólarannsóknadeildar rætt hvers vegna
starf í skólastofum liafi breyst hægt þrátt fyrir að nýtt námsefni, samið á áttunda
áratugnum, gerði ráð fyrir talsvert róttækum breytingum. Nefndar hafa verið fjölmargar
ástæður fyrir því að breytingar hafi verið hægfara. Þessar ástæður tengjast m.a. hæfi og
undirbúningi kennara til að þess að koma breytingunum í kring og áhugaleysi stjórn-
valda, einkum þeirra sem ráða yfir peningum. Þá hefur Sigríður Jónsdóttir námstjóri
bent á að umbótafólk Skólarannsóknadeildar hafi lagt of lítið upp úr samvinnu við
foreldra og ekki síður kynningu og umræðum við skólayfirvöld á hverjum stað,
stjórnmálamenn og fjölntiðla. Sigríður bendir einnig á almennt viðnám gagnvart
breytingum.64 Wolfgang Edelstein, ráðunautur menntamálaráðuneytis frá 1966-1984,
hefur bent á að umbótafólk hafi verið sekt um „ofmat á mœtti vísindalegra röksemda“
og vanmat á „hversu flókin breytingaferli í skóla eru“.65 Ingvar Sigurgeirsson fyrrum
námstjóri og Þorvaldur Örn Arnason námstjóri hafa tekið í sama streng hvað varðar
hægfara breytingar.66 í stuttu máli áleit Skólarannsóknadeildarfólk lengi vel að á
endanum myndu „vísindalegar röksemdir“ og ágæti hins nýja námsefnis sannfæra
kennara og aðra um að þetta efni þyrfti að nota og kennsluháttum að breyta, ekki síst ef
ráðuneytið sinnti betur kynningu þess við foreldra og almenning.
Að mínu viti er jafnranglátt að kenna grunnskólakennurum um hvernig til tókst og
að ásaka Skólarannsóknadeildarfólk um að það hafi ekki staðið vel að námsefnis-
gerðinni. Auðvitað eru hvorki kennarar né umbótafólk hafin yfír gagnrýni, og vissulega
er sjálfsgagnrýni umbótasinna þýðingarmikil í þeirri viðleitni að meta árangur
menntaumbóta. Á hinn bóginn er deilan um hvort skólar hafi breyst mikið eða lítið
barnaleg (naive), séð af félagsfræðilegum sjónarhóli, og skammsýn, séð af pólitískum
sjónarhóli. Menntun er ekki tæknilegt eða verkfræðilegt vandamál, heldur þjóðfélags-
63 Hreinn Pálsson 1990:42.
64 Sigríður Jónsdóttir 1988.
63 Wolfgang Edelstein 1988:272-273, leturbreytingar hans.
66 Sjá t.d. Ingvar Sigurgeirsson 1987 og 1988 og Þorvald Örn Árnason 1987.
161