Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 157
Ingólfur Á. Jóhannesson
bera Islandssögubækur Gunnars Karlssonar, Sjálfstœði Islendinga,41 saman við Islands
sögu Jónasar á sömu forsendum og sjá hvað enn stendur eftir. Námsefni í fleiri
greinum, svo sem landafræði og náttúrufræði, mun upphaflega hafa verið valið á
svipuðum forsendum og þeim sem Jónas studdist við, þ.e. að þekkingaratriði væru
valin með hliðsjón af þörfum þjóðar sem átti í sjálfstæðisbaráttu.42
Skrifleg próf, tekin upp á þriðja áratugnum,43 áttu einnig sinn þátt í því að styrkja
þekkingargrunn þjóðernishyggjunnar. Með því móti geymdust prófspurningar betur á
milli ára og nýir kennarar fengu prófblöð í arf frá hinum eldri. Þá var ríkjandi
kennsluaðferð, þ.e. ógagnrýnin safnaðarkennsla,44 drjúg til að treysta stöðugleika í því
hvað kennt var. Með safnaðarkennslu er átt við að nemendur sitji og innbyrði
staðreyndir af bók eða úr máli kennara og þylji þær þegar gefið er merki, líkt og þegar
söfnuður svarar presti við messugjörð, enda voru lúterskir prestar lengi einu barna-
kennararnir.
Hefðarstefnunni og hugmyndum hennar um góða kennsluhætti má líkja við vef,
ofinn úr ofangreindum þráðum sem eiga sér ólíka sögu. Þekkingargrunnur náms-
greinanna, kennsluaðferðir, námsmat í formi smáatriðaprófa, og þau skil á milli
landafræði, sögu, átthagafræði, dýrafræði, heilsufræði og grasafræði sem mótast höfðu,
gerðu hinum nýju hugmyndum Skólarannsóknadeildar erfitt fyrir þar sem þær gengu
ekki einungis í berhögg við einstaka þræði í þessum vef, heldur vefinn allan. Bæði
andstæðingar og fylgjendur uppeldisfræði Skólarannsóknadeildar lögðu áherslu á
muninn á „gömlum“ og „nýjum“ hugmyndum um námsefni. Skólarannsóknadeildarfólk
undirstrikaði lýðræðislegt og vísindalegt eðli hins nýja námsefnis, sem samið var í
deildinni, og benti á að aðferðirnar, sem væru hluti af þessu námsefni, væru byggðar á
þeirri forsendu að börn væru skapandi verur. Andstæðingarnir töldu hins vegar að
uppgötvunarnám gæti orðið til þess að þekkingu nemenda hrakaði stórum. Meðal þess
sem andstæðingarnir héldu fram var að virkni-uppeldisfræði væri dýrkun á andlausri
iðju. T.d. fullyrti Arnór Hannibalsson að það ætti „að hampa tossunum" (er annars
eitthvað athugavert við að hlúa að nemendum sem illa gengur?) og að námskröfur
þættu úreltar.45 Þá höfðu andstæðingar Skólarannsóknadeildar áhyggjur af því að
virkni-uppeldisfræði myndi eyðileggja þjóðerniskennd Islendinga, þeir gagnrýndu mjög
sálarfræði og hæddust að Piaget og fleirum sem Skólarannsóknadeildarfólk sótti í
smiðju til.46
Svo fráleitt sem það kann að virðast við fyrstu sýn, þá bendir flest til þess að árásir
íhaldsins, vopnuðu hefðarstefnurökum, á samfélagsfræði og fleiri þætti urnbóta-
stefnunnar á fyrri hluta níunda áratugarins hafi orðið til þess að auka gildi umbótastefnu
sem kapítals á baráttuvettvangi menntaumbóta. Fylgjendum og gagnrýnendum bar
4' Gunnar Karlsson 1985, 1986 og 1988.
4^ Þorsteinn Gunnarsson 1990.
43 Sjá nánar Ólaf J. Proppé 1983a.
44 Þorsteinn Gunnarsson 1990, Þorsteinn Gunnarsson og Ingólfur Á. Jóhannesson
1990.
4^ Arnór Hannibalsson 1986:30.
4^ Sjá t.d. Arnór Hannibalsson 1986. Rækilegri greinargerð fyrir þessari gagnrýni er í
ÍÁJ 1991, kafla 5.2; sjá ennfremur Þorstein Gunnarsson 1990.
155