Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 228
Ólafur Proppé
reknar með uppeldi og menntun að meginviðfangsefni. Þó að þeim starfsstéttum sem
sinna þessum störfum fjölgi stöðugt í nútímasamfélagi (t.d. fóstrur, þroskaþjálfar og
ráðgjafar af mismunandi tagi), beini ég augum fyrst og fremst að kennurum, starfi
þeirra og menntun.
Kennarafræði, líkt og t.d. læknisfræði og hjúkrunarfræði, er samsett úr fjölda
þekkingarsviða sem hvert um sig hefur þróast sem sjálfstæð fræðigrein og byggt upp
eigin aðferðafræði og kenningarlíkön. Sitt lítið af hverju nægir þó ekki til að unnt sé
að tala um kennarafræði. Gagnvirk tengsl kenningar og starfs (teóríu og praxis) skipta
sköpum í kennarafræði eins og á öðrum starfsmiðuðum fræðasviðum, t.d. hjúkrunar-
fræði, læknisfræði, lögfræði og verkfræði.
Uppeldis-, kennslu- og kennarafræði hafa mótast sem sjálfstæðar greinar sem fást
við bæði fræðileg og hagnýt viðfangsefni. Uppeldisfrœði skilgreini ég hér sem
fræðigrein er fjallar um uppeldi og menntun fólks á öllum aldri, bæði innan stofnana
og utan þeirra. Kennslufrœði fjallar hins vegar um starf uppalenda, kennara og
stjórnenda skóla; einkum undirbúning, framkvæmd og mat á skólastarfi. Kennarafrœði
nær til allra þeirra fræða og fræðasviða sem kennurum er nauðsynlegt að þekkja og
geta beitt til að greiða með faglegum og markvissum hætti fyrir þroska og námi.
Kennarafræði tengir saman uppeldis- og kennslufræði annars vegar og þekkingarfræði
námsgreinanna hins vegar, og umbreytir þeim í skólastarf sem, þegar vel tekst til,
stuðlar að uppeldi og menntun. Líkt og almenn þekkingarfræði (epistemology) er sú
grein heimspeki sem fæst við grundvöll, eðli og takmörk þekkingar almennt, fjallar
þekkingarfræði einstakra námsgreina og annarra viðfangsefna í skólastarfi um
grundvöll, eðli, formgerð og takmörk viðkomandi þekkingarsviðs.
Vaxandi kröfur til kennara - aukin þörf fyrir kennarafrœði
Kennarar sem fagstétt eiga að vissu leyti í vök að verjast. Undanfarna áratugi hefur í
auknum mæli borið á því að ákvarðanir um markmið, inntak og jafnvel aðferðir komi
utan frá til kennara. Nú eru, a.m.k. í orði, gerðar stórauknar kröfur um dreifstýringu í
skólum landsins. Skólaþróun og skólanámskrár eru nú lykilorðin. Á sama tíma gerir
þjóðfélagið auknar kröfur á hendur kennurum og skólum. Viðfangsefnin sem sam-
félagið ætlar skólanum að leysa af hendi verða stöðugt yfirgripsmeiri og fjölþættari.
Uppeldis- og menntunaraðstæður í þjóðfélaginu hafa breyst á byltingarkenndan hátt á
nokkrum áratugum og kemur sú breyting e.t.v. skýrast í ljós í breyttu
fjölskyldumynstri, stóraukinni fjölmiðlun af öllu mögulegu tagi og yfirþyrmandi flóði
upplýsinga. Dagar hefðbundinna kennslubóka verða hugsanlega bráðum taldir og
kennurum því nauðsynlegt að tileinka sér nýja tækni sem gerir þeim kleift að velja
námsefni í takt við aðstæður hverju sinni og mismunandi hæfileika og áhuga nemenda
sinna.
Kennarafræði er að nokkru leyti alþjóðleg, þ.e. að því er tekur til almennrar
fræðilegrar þekkingar og aðferða. En hún er líka þjóðleg og við hana verður ekki
fengist án verulegra tengsla við tungumál, menningu og félagslegan veruleika þess
þjóðfélags sem um er að ræða hverju sinni. Á sama hátt má segja að kennarafræði sé
að verulegu leyti fræðileg, en án gagnvirkra og hagnýtra tengsla við vettvanginn verður
hún lítils virði. Kennarafræði er fræðigrein sem byggir á og þróar tiltekinn þekkingar-
226