Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 226
Ólafur Proppé
lít svo á að orðið menn gildi um konur jafnt sem karla). Menntun er það að verða að
manni, að nýta þá möguleika til þroska sem við fáum í vöggugjöf. Menntun er ekki
það að vita mikið, að vera fróður, heldur að vera leitandi - að tengja saman hugsun,
gagnrýni og athafnir. Það þarf ekki mikla umhugsun eða umræðu til að komast að raun
um að uppeldi og menntun eru grundvallarþættir mannlegs samfélags og eru ekki síður
mikilvægir en t.d. heilbrigði.
Þegar við fæðumst í þennan heim eigum við flest ólært af því sem einkennir
mannlegt samfélag og mannlega tilveru. Nýfædd eigum við t.d. eftir að tileinka okkur
og ná valdi á tungumáli (móðurmálinu) til samskipta við annað fólk. Við kunnum ekki
að ganga og getum ekki hreyft okkur úr stað. Við eigum eftir að ná valdi á hárfínum,
fjölbreytilegum og samhæfðum hreyfingum vísifingurs og þumalfingurs; hreyfingum
sem einkenna manninn og eru merkilegur lykill að tækni- og verkþróun í mannlegu
samfélagi. Við eigum eftir að læra og þroska með okkur tilfinningar, gildismat og
viðhorf sem gera okkur kleift að lifa í samfélagi við annað fólk. Og við eigum eftir að
læra að hugsa og öðlast leikni í að tala, hlusta, lesa, skrifa, reikna, leysa þrautir,
þekkja, greina í sundur, bera saman, skilja, meta, áætla og giska á, svo eitthvað sé
nefnt. Við eigum við fæðingu langan veg að því takmarki að verða menn með
mönnum, að verða virkir og ábyrgir þátttakendur í mannlegu samfélagi. Við tölum um
vöxt, þroska, uppeldi og menntun. Þessi hugtök höfða til sama ferlisins, þ.e. ævi-
skeiðs einstaklingsins frá fæðingu (jafnvel frá getnaði) til fullorðinsára og jafnvel til
æviloka.
Skólastarf er mun afmarkaðara hugtak en menntun og tengist sérstökum stofnunum,
sem samfélagið kemur á fót til að taka að sér, fyrir þess hönd, hluta af þessum þætti í
lífi einstaklingsins. Skólastarf getur verið og er með ýmsu móti. Ef þróun skólastarfs,
t.d. síðustu eitt hundrað árin, er skoðuð með skipulögðum hætti kemur í Ijós að
hlutverk skólans hefurbreyst samfara öðrum breytingum í samfélaginu, efnahagslegum
og félagslegum, og svo er einnig um skólastarfið sjálft. Alltaf er togstreita um tilgang,
markmið og leiðir í skólastarfi eins og um uppeldi og menntun yfirleitt. Það er tekist
á um forsjá og frelsi, samfélagslega hagsmuni og einstaklingsbundin markmið. Við
uppeldi barna sinna verða foreldrar að taka ákvarðanir um það hvað börnum þeirra er
fyrir bestu. Það sama á við um samfélagið í heild, kennara og aðra sem vinna að
uppeldis- og menntamálum.
Frá þjóðfélagslegu sjónarmiði er bæði almennt og sérhæft skólastarf afar mikilvægt.
Það skiptir því miklu máli fyrir foreldra, nemendur og samfélagið allt að metnaðarfullir
einstaklingar velji kennarastarfið sem lífsstarf. Það skiptir einnig miklu máli að þeir.
sem stunda kennslustörf kunni til verka svo að skólastarfið verði árangursríkt,
nemendur skólans fái markvissan stuðning á þroskaferli sínum og öðlist þar menntun
sem nýtist bæði þeim sjálfum og þjóðfélaginu í heild. Ef til vill skiptir þó mestu að
þeir, sem leggja kennslustörf fyrir sig og mennta sig til slíkra starfa, líti aldrei svo á að
þeir séu fullnuma. Fagvitund og fagmennska er ekki síst í því fólgin að halda áfram að
læra í starfi af eigin reynslu og annarra. Til þess að svo megi verða þurfa kennarar að
hafa fræðilega afstöðu til starfsins, til eigin þekkingar og viðhorfa.
Upphaf formlegrar kennaramenntunar á íslandi stóð í beinum tengslum við baráttu
fyrir almenningsmenntun í landinu á síðari hluta nítjándu aldar. Það er eftirtektarvert að
menntun kennara í uppeldis- og kennslufræði hefur haldist í hendur við þróun
224