Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 235
Pétur Bjarnason
allmiklum vinsældum að fagna, en síðustu tvo áratugi hefur þeim fækkað og
skólaakstur aukist. Batnandi vegakerfi og bifreiðakostur eiga sinn þátt í þessari þróun.
Fólksflótti úr sveitum, sameining sveitarfélaga og bættar samgöngur hafa vakið
umræður um litlu sveitaskólana, einkum með það fyrir augum að loka þeim í hag-
ræðingarskyni. Margir bera ugg í brjósti vegna aðstöðu þeirra sem í dreifbýlinu búa.
Sérfræðingar á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, sem gerðu
úttekt á íslenska skólakerfinu, skoðuðu allmarga af smærri skólunum og þeir segja
m.a. í skýrslu sinni:
Það er enginn vafi á því, að framtíð þorpa og sveita mun að miklu leyti ráðast af þeirri
menntun sem skólar þar geta boðið, og sama má segja um landið í heild, þ.e. að
efnahagsleg framtíð þess mun ákvarðast af skólakerfinu.3
Ekki verður annað af skýrslunni ráðið en sérfræðingarnir telji litlu skólana vera
nauðsynlega, þrátt fyrir ýmsa annmarka:
Skólahaldi til sveita fylgja sérstök vandamál, í fyrsta lagi vegna þess hve byggð er
dreifð, og í öðru lagi vegna geysilegs skorts á menntuðum kennurum. Sumir
sveitaskólar eru mjög litlir og í sumum þeirra (13) eru færri en 10 nemendur og þar af
leiðandi óhjákvæmilegt að kenna mismunandi aldurshópum saman. Slíkri kennslu
fylgja þó ýmsir kostir, eins og hefur sýnt sig á íslandi sem annars staðar. Það er
skiljanlegt að þeir sem búa til sveita vilji halda í sína skóla, bæði til að börn þeirra
þurfi ekki að ferðast langar leiðir í skólann og einnig af því að í sveitunum er skólinn
miðdepill hinnar dreifðu byggðar. Við þessar aðstæður skapast tækifæri til að treysta
tengsl skóla og heimila og foreldrum er gert kleift að hafa hönd í bagga við menntun
barna sinna, sem ekki er mögulegt sé langt að sækja í skólann. Þótt erfiðleikum sé
bundið að halda uppi kennslu í öllum námsgreinum í sveitaskólum og erfitt að fá
fullmenntaða kennara, þá er varla um annað að ræða en að halda áfram að reka þá.4
Hér á eftir verður þess freistað að fjalla nokkru nánar um hina fámennu skóla, stöðu
þeirra og gildi.
Hvað er fámennisskóli?
Samtök fámennra skóla, sem hafa aukið verulega samstarf litlu skólanna á síðustu
árum, hafa frá upphafi miðað við stærðina 100 nemendur eða þar um bil. Rökin eru
þau að skólar af þeirri stærð verði enn að beita samkennslu árganga í nokkrum inæli en
hún fer síðan mjög minnkandi úr því. Samt er það ljóst að mikill munur er á skipulagi
eins skóla með 100 nemendur og annars með 10 nemendur. Eg mun ekki gera glögg
skil á stærð skóla, en frekar miða við fámennari sveitaskóla. í Vestfjarðaumdæmi
táknar þetta að nemendafjöldi er innan við þrjátíu, og einn til tveir kennarar starfa við
skólann auk skólastjóra. Dæmigerður þorpsskóli á Vestfjörðum með 60-80 nemendur
telst reyndar fámennisskóli samkvæmt áðurnefndri skilgreiningu.
Veturinn 1988-89 voru taldir 147 grunnskólar á landsbyggðinni (þ.e. utan
Reykjavíkur og Reykjanesumdæmis). Af þeim voru 55 skólar með 1—40 nemendur, 40
skólar með 41-100 nemendur og 52 skólar með fleiri nemendur en 100.5 Af þessu sést
3 Skýrsla um menntastefnu, bls. 7.
^ Sama rit bls. 13.
^ Fámennir skólar 1988-89.