Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 311
Sigurjón Mýrdal
og eiga að skapa evrópskum kennurum breytt skilyrði og ný hlutverk. Þar er einnig
hamrað á „formlegri fagmennsku" kennarastéttarinnar og menningarlegri ábyrgð
hennar.61
„ Enginn stöðvar tímans þunga nið “
Aldaslög sögunnar duna áfram innanlands jafnt sem erlendis. Sú sögulega spenna, sem
nú á sér stað á vettvangi stjórnmála og efnahagsmála um gjörvalla heimsbyggðina og
birtist m.a. í hruni ríkiskommúnismans og samruna Evrópuríkja, kemur einnig fram í
íslenskum efnahagsmálum, stjórnmálum og menningarmálum. Skipan alþjóðastofnana
og viðskipti við erlend stórveldi hljóta að hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf, stjórnmál,
og ekki síst menntamál.62 í náinni framtíð mun íslensk menntastefna væntanlega draga
dám af verkefnum Evrópubandalagsins enda fjalla samningaviðræður EB og EFTA m.a.
um aukið samstarf á þessu sviði.
Örlög íslenskra kennara verða að öllum líkinduin ráðin í þessu samhengi.
Hugmyndir um félagsstöðu íslenskra kennara hafa breyst á því skeiði sem hér er til
umfjöllunar. Margs konar hugmyndir hafa verið á kreiki um kennarann sem
„menningarvita", „ríkisstarfsmann", „óháðan fagmann“ o.s.frv.63 Hugmyndin ræðst
væntanlega hverju sinni af félagssögulegri stöðu, ekki kennaranna eingöngu, heldur
miklu frekar þeirra sem fjalla um hlutverk kennara. Staða kennarastéttarinnar er
félagslega skilyrt og flöktir stöðugt í menningarlegri og efnahagslegri umræðu.
Hugmyndir um kennarann og kennslu eru margbrotið endurkast félagssögulegra
aðstæðna.64
A 20. öld hefur ríkisvaldið stöðugt hert tök sín í fræðslumálum, sem og öðrum
félagsmálum, einkum á síðustu áratugum. Vísindaleg þekking og tæknilegar lausnir
hafa í auknum mæli haldið innreið sína í mennlakerfið. Hér að framan var sérstakur
gaumur gefinn að þeim breytingum sem urðu á starfsaðstæðum og kjörum
kennarastéttarinnar við umbætur á skólastarfi á 7. og 8. áratugnum. Reynt var að benda
á hvernig þær hugmyndir um kennarastarfið spruttu úr jarðvegi alþjóðlegra umbrota.
Það kenningamynstur og sú stofnanagerð, sem gegnsýrði það tímabil, var einn þáttur
umbrota í hagkerfi eftirstríðsáranna og endurómaði m.a. í tilburðum efnahagslegra og
menningarlegra stórvelda sem beittu fyrir sig fjölþjóðastofnunum.65 Þær ríkisreknu
breytingar í fræðslumálum breyttu hlutverki kennara og endurnýjuðu skilgreiningar á
fagmennsku í menntamálum. „Nýir“ fagmenn komu til skjalanna, sáu og sigruðu á
ýmsum vígstöðvum í skólakerfinu þar sem kennarar höfðu ríkt áður. Nýjar starfs-
stéttir, s.s. námstjórar, safnkennarar, gangaverðir, sérkennarar af ýmsu tagi,
skólasálfræðingar og félagsráðgjafar, hafa rutt sér til rúms í skólakerfinu og oft lagt
undir sig verkefni sem áður voru í umsjón kennara. Störf kennara og fagvitund þeirra
61 Neave 1991; EEC 1988.
sjá t.d. Bandalag háskólamanna 1989.
63 Sjá t.d. Gunnar Finnbogason 1990; Ingólf Á. Jóhannesson 1987; Jónas Pálsson
1986 og Ólaf Proppé 1983.
64 Liston og Zeichner 1991; Popkewitz 1991.
66 Wallerstein 1991; Chase-Dunn 1989; Meyer 1987.
309