Uppeldi og menntun - 01.01.1992, Blaðsíða 324
Þuríður J. Kristjánsdóttir
Af þessum 61 I kennurum fullnægðu 315 ákvæðum laganna um fjögurra ára
setningu hið minnsta. Af þeim höfðu 130 verið settir 14 ár eða lengur og fengu því
skipun án undanfarandi náms. Nokkuð á annað hundrað sóttu um réttindanámið,
nokkrir þeirra mættu ekki til leiks og fáeinir hættu strax í upphafi. Reglulegt nám
hófu 123 réttindalausir kennarar. Af þeim luku 105 námi, eða 85%, 54 karlar og 51
kona. Þeir sem þurftu minnst nám að taka, 23 alls, luku allir. I næsta hópi hófu 55
nám og 44 luku, í þriðja hópnum hófu nám 27, 25 luku, og 18 voru í byrjun í síðasta
hópnum, 13 luku.
Gert hafði verið ráð fyrir að réttindanámið hæfist vorið 1980. Að ósk kennara-
samtakanna var þeim sem það kusu boðið að hefja það haustið 1979. Sennilega hafa
hvorki kennarasamtökin né skólinn gert sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem sú
ákvörðun olli. Eins og áður er sagt var um fjóra mismunandi námshópa að ræða, þar
að auki skiptust nemendur á margar valgreinar án tillits til hópa. Haustið 1979 hófu 66
námið og voru úr öllum hópunum. Þannig var um átta misgengishópa að ræða sem
reyndist mjög erfitt stjórnunarlega og námið var dýrara en ella fyrir þær sakir.
Námstími var 2—4 ár þótt sumir lykju seinna.
í samræmi við ákvæði embættisgengislaganna samsvaraði námið í uppeldisgreinum
einu námsári. Þá var ekki farið að meta nám í Kennaraháskólanum til námseininga en
síðar hefur uppeldisgreinanámið verið metið til 30 eininga, valgreinar til 10 eininga
hver og kjarnagreinar samtals til 4 eininga.
Boðið var upp á sömu valgreinar og voru þá í B.Ed.-náminu, þ.e. allar kennslu-
greinar grunnskóla utan tónmenntar, myndmenntar og íþrótta, og boðið var upp á
kennslu yngri barna að auki. Svo fáir sóttu um líffræði, eðlisfræði, kristinfræði og
hússtjórn að þær greinar féllu niður. Kjarnagreinar voru íslenska, stærðfræði, líffræði
og félagsfræði.
Fyrirkomulag námsins var þannig að nemendur komu í janúarbyrjun í skólann í
eina viku. Þá var lagt inn það námsefni sem síðan skyldi numið heima á vorönninni.
Fór það nám fram í bréfaskóla. Að sumrinu var verið samfellt í skólanum 5-6 vikur í
júní-júlí. Þá var fyrstu dagana lokið við nám vorannar, ýmist með prófi eða á annan
hátt, og síðan kennt á venjulegan hátt námsefni sem lokið var við fyrir sumarfrí, en
það var í styttra lagi þar sem nemendur komu aftur síðari hluta ágústmánaðar. Þá var
lagt inn námsefni haustmisseris, og síðan tók við bréfaskóli sem lauk í upphafi næsta
árs, á janúarnámskeiði þar sem svo var aftur lagt inn nýtt efni.
Við snögga könnun á útmánuðum 1990 hafðist upp á 98 kennurum af þeim 105
sem luku náminu. Af þeim voru 85, eða 87%, við kennslu, þar af 64 í sínu gamla
fræðsluumdæmi, 10 voru við önnur störf á sama stað, 2 hættir vegna aldurs og einn
fluttur úr landi. Þess má geta að þeir sem fluttu milli fræðsluumdæma leituðu ekki
mest á suðvesturhorn landsins, 3 fluttu til Reykjavíkur og 3 á Reykjanes en á móti
fluttu 3 af Reykjanesi norður í land. Þetta bendir til þess að réttindanámið hafi einkum
sótt fólk sem var fast í sessi þar sem það bjó og námið hafi því nýst dreifbýlinu vel.
Af þeim 85, sem hafðist upp á og voru við kennslu 1990, kenndi 71 utan Reykja-
víkur, Kópavogs og Seltjarnarness.
322